Þorlákshafnardrengurinn Daníel Arnarsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtakanna ’78. Samtökin ’78 eru hagsmuna- og baráttusamtök hinsegin fólks á Íslandi.
Daníel er 27 ára og er uppalinn í Þorlákshafnarbúi en hefur undanfarin ár verið búsettur á höfuðborgarsvæðinu. Hann hefur nýlokið námi við Háskóla Íslands en hann útskrifast þaðan með BA gráðu í félagsfræði.
„Daníel hefur verið virkur í félagastarfi síðan 2007, bæði í Vinstrihreyfingunni – grænu framboði sem og í Samtökunum ’78. Hann hefur tekið þátt í ungliðastarfi og kosningabaráttu árin 2009, 2013 og 2016 og er jafnframt varaþingmaður fyrir VG og situr í stjórn hennar. Daníel er vel kunnugur rekstri en hann var framkvæmdastjóri VG frá 2014-2016 og rak áður kaffihús Te & Kaffi ásamt öðrum.“ Segir um Daníel á heimasíðu Samtakanna ’78.
Þar segir einnig að Daníel hafi mikinn á mannréttindabaráttu og hefur ávallt sett hana á oddinn þegar kemur að félagslegu starfi bæði innan pólitíkurinnar sem og í öðrum störfum. „Daníel sat í trúnaðarráði Samtakanna ’78 frá mars 2015 til september 2016. Reynsla Daníels af rekstri og því vinnuumhverfi sem hann kemur úr mun koma sér vel í starfi Samtakanna ’78.“