Það er alltaf ánægjulegt að ljúka verkefnum og eins er það skemmtilegt að byrja á nýjum verkefnum. Ég er ánægður með að vera kominn til starfa fyrir yngri flokka Ægis og hlakka til að stuðla að eflingu knattspyrnunnar hér í bæ.
Það er langhlaup og þolinmæðis vinna að ná góðum árangri á sviði íþrótta líkt og á öðrum sviðum og auðvelt er að heimfæra starf okkar í íþróttum yfir á önnur verkefni sem við tökumst á við í okkar daglega lífi. Við setjum okkur markmið á þeirri leið sem við erum, það hjálpar okkur að ná framförum í þeim verkefnum sem við tökumst á við.
Í öllum aðstæðum felast kostir og gallar. Það er ákveðin leið að sjá kostina og finna lausnirnar sem við þurfum á að halda. Við búum t.d. við það hjá Ægi að vera háð öðrum þegar kemur að keppni. Þær aðstæður verðum við að leysa sem best af hendi. Markmið okkar hjá Ægi er að halda vel utan um þá iðkendur sem stunda æfingar hjá okkur og bjóða þeim markvissa og góða þjálfun. Áhersla er lögð á að ná mjög góðri tæknilegri færni. Í aðstæðum sem þessum er augljós kostur að búa yfir þolinmæði. Við fylgjum iðkendum okkar eftir í keppni og reynum að vera sem mest með á öllum sameiginlegum æfingum. Það getur einnig verið snúið þegar kemur að sameiginlegum æfingum að koma okkar iðkendum á þær æfingar. Þar koma foreldrar inn og hjálpast að við að leysa akstur á æfingar í samstarfi við þjálfarana. Þungamiðjan í starfinu eru foreldrarnir, því skiptir það okkur miklu máli að allir séu á sömu blaðsíðu. Mikilvægt er að við getum komið starfinu í þann farveg að góð sátt ríki og allir hjálpist að við að leysa þau verkefni sem leysa þarf.
Mikilvægt er að gott upplýsingaflæði sé til foreldra og iðkenda og notum við ,,snjáldurskjóðuna“ til að koma boðum til þeirra. Einnig erum við með síðu sem heldur utan um starfið okkar. Þar tíundum við okkar markmið, setjum inn myndir úr starfinu, myndbönd og fróðleiksmola sem og fræðslu fyrir iðkendur og foreldra. Slóðin á síðuna er: aegirfc.weebly.com. Eitt mikilvægt samstarfsverkefni sem okkur í Ægi langar að vinna að á þessu tímabili er að setja saman foreldrahandbók í góðri samvinnu við foreldra. Meira um það verkefni síðar.
Þó við í Ægi séum upptekin af núinu þá horfum við einnig til framtíðar. Sérstaklega á það við um bætta aðstöðu til knattspyrnuiðkunar í Þorlákshöfn. Án efa verður það mikil lyftistöng fyrir fótboltann hér í Þorlákshöfn ef að aðstaðan yrði betri. Við viljum því beina því til sveitarfélagsins og allra velunnara knattspyrnu hér í sveitarfélaginu að skoða það af fullri alvöru að byggja knattspyrnu -fjölnotahús sem myndi opna á fjölmörg ný tækifæri fyrir íþrótta- og mannlíf á staðnum. Slíkt mannvirki hefði án efa mikil jákvæð áhrif á samfélagið okkar.
Með góðri kveðju,
Sveinbjörn Jón Ásgrímsson