Nýverið samþykkti Sjálfstæðisfélagið Ægir framboðslista sinn, XD, fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar í Sveitarfélaginu Ölfus sem fram fara 26. maí nk. Listinn samanstendur af fjölbreyttum hópi fólks með víðtæka reynslu og þekkingu af hinum ýmsu sviðum samfélagsins.

Mikil endurnýjun er á listanum en á honum eru einnig reynsluboltar í sveitarstjórnarmálum. Frambjóðendur eru úr öllum aldurshópum, og koma bæði úr dreifbýli og þéttbýli, sumir hafa búið hér lengi en aðrir eru nýlega fluttir hingað. Listann skipa 7 konur og 7 karlar.

Það er mikið tilhlökkunarefni að starfa með þessum fjölbreytta og flotta hóp og eitt af helstu áherslumálum listans á komandi kjörtímabili er að gera Sveitarfélagið Ölfus að enn betri búsetukosti en nú þegar með það að leiðarljósi að auka þjónustu við íbúa og fyrirtæki. Á næstu dögum verða stefnumál D listans kynnt í kjölfar opinna málefnafunda þar sem íbúum sveitarfélagsins gefst kostur á að koma á framfæri sínum áherslum og hugmyndum og hafa þannig bein áhrif á mótun samfélagsins.

Fyrstu opnu fundirnir verða haldnir miðvikudaginn 11. apríl í Ráðhúsinu í Þorlákshöfn og fimmtudaginn 12. apríl í Fákaseli í Ölfusi og hefjast þeir kl. 19:30. Við hvetjum alla íbúa til að mæta á fundina og í framhaldinu taka þátt í kosningabaráttu okkar en við munum leggja áherslu á hún verði málefnaleg og heiðarleg og síðast en ekki síst skemmtileg.

Kveðja
Gestur Þór Kristjánsson
Oddviti D-listans í Sveitarfélaginu Ölfus

Hér má sjá lista X-D fyrir komandi kosningar.