Benedikt og Jenný Lovísa í úrvalsdeild – Töpuðu ekki leik!

Þorlákshafnarbúinn Benedikt Guðmundsson er að gera frábæra hluti með kvennalið KR en í kvöld tryggði liðið sér sæti í úrvalsdeild eftir 3-0 sigur í úrslitaviðureignunum við Fjölni um laust sæti í deild þeirra bestu.

Þá varð KR einnig deildarmeistari 1. deildar undir hans stjórn á dögunum. KR konur fóru taplausar í gegnum tímabilið, unnu alla 24 deildarleikina sem og leikina 3 gegn Fjölni í úrslitum.

Benedikt er ekki eini Þorlákshafnarbúinn í liðinu því dóttir hans Jenný Lovísa Benediktsdóttir er leikmaður liðsins. Jenný, sem er aðeins 17 ára, átti flott tímabil þar sem hún skoraði að meðaltali 4,2 stig í leik á rúmum 13 mínútum.