Taktu flugið með framfarasinnum og félagshyggjufólki í Ölfusi

Eins og fram hefur komið hér í Hafnarfréttum og víðar þá hefur undirritaður og fimm aðrir núverandi bæjarfulltrúar í Ölfusi ákveðið að bjóða fram saman í komandi kosningum. Til liðs við okkur höfum við fengið góðan hóp af áhugasömu og kraftmiklu fólki sem spennandi verður að vinna með á næstu misserum og árum.

Ég er að ljúka mínu fyrsta kjörtímabili sem bæjarfulltrúi en ég var 1. varabæjarfulltrúi Framfarasinna kjörtímabilið þar á undan. Það má með sanni segja að það er lærdómsríkt að taka þátt í sveitarstjórnarstarfi, verkefnin fjölbreytt og misauðveld viðureignar. Á líðandi kjörtímabili hefur bæjarstjórn Ölfuss tekið þátt í framgangi margra verkefna stórra sem smárra og mörg önnur er í burðarliðnum og handan við hornið.

Hópurinn sem stendur að lista framfarasinna og félagshyggjufólks er samstilltur og tilbúinn að vinna áfram að góðum verkum. En ávallt má gera betur og mikilvægt að sem flestir komi að starfinu og mótun þess. Því hvet ég alla til að mæta á opna fundi okkar sem haldnir verða núna eftir helgina og hafa þannig áhrif á þau mál sem lögð verður áhersla á. Mánudagskvöldið 16. apríl kl. 20.00 að Hjarðarbóli í Ölfusi og kvöldið eftir þann 17. apríl kl. 20.00 í Kiwanishúsinu Ölveri í Þorlákshöfn. Við hlökkum til að sjá sem flesta íbúa í Þorlákshöfn og Ölfusinu. Áfram Ölfus!

Jón Páll Kristófersson
Skipar 1. sæti á lista framfarasinna og félagshyggjufólks, XO