Þorláksskógar

Verkefnið Þorláksskógar byggist á samningi milli Sveitarfélagsins Ölfuss, Landgræðslu ríkisins og Skógræktarinnar sem undirritaður var þann 26. október 2016. Fyrirhugað skógræktarsvæði er um 4.620 ha svæði á Hafnarsandi við þéttbýlið Þorlákshöfn. Megin markmið verkefnisins er að græða upp land og rækta skóga til að verjast náttúruvá, vernda byggð og auka nýtingarmöguleika svæðisins, s.s. til útivistar. Einnig að vinna að stefnu íslenskra stjórnvalda í loftslagsmálum í samræmi við Parísarsamkomulagið, endurheimt vistkerfa til að auka líffræðilega fjölbreytni og framkvæmd laga um skógrækt og laga um landgræðslu, styðja við atvinnuþróun og eflingu byggðar á svæðinu.

Framkvæmd verkefnisins

Verkefnið verður fjármagnað með framlögum ríkis, sveitarfélags, sjóða og fyrirtækja. Verkið verður unnið í sjálfboðavinnu, af félagasamtökum, stofnunum og einstaklingum, sem og af verktökum. Stefnt er að því að græða land þar sem þörf er á og gróðursetja trjáplöntur í framhaldinu í svæðið. Ætlunin er að skógarnir breiðist á næstu áratugum út með sjálfsáningu út frá trjáreitum. Nærsvæði Þorlákshafnar er hugsað sem útivistarskógur og svæðin fjær sem náttúrulegur birkiskógur. Verktími er áætlaður um 20 ár.

Í framtíðinni gætu Þorláksskógar orðið stærsti útivistarskógur á suðvesturhorni landsins með ótal möguleikum til útivistar og yndisauka fyrir íbúa og gesti.

Í dag munu frambjóðendur XO Ölfusi færa íbúum sveitarfélagsins birkiplöntu sem þeir geta annað hvort gróðursett í eigin garði, í sitt nærumhverfi eða í Þorláksskóga.

Anna Björg Níelsdóttir
Skipar 13. sæti á lista Framfarasinna og félagshyggjufólks í Ölfusi, XO