Lúðrasveit Þorlákshafnar ásamt Stebba Jak á Akureyri

Í kvöld klukkan 20 stígur Lúðrasveit Þorlákshafnar á svið í Hofi á Akureyri þar sem sveitin spilar lög Magnúsar Þórs Sigmundssonar þar sem stórsöngvarinn Stefán Jakobsson syngur við undirspil lúðrasveitarinnar.

Fyrir ári síðan hélt Lúðrasveit Þorlákshafnar þrenna tónleika í Þorlákshöfn, Hveragerði og Reykjavík með lögum Magnúsar Þórs Sigmundssonar. Sveitin fékk til liðs við sig söngvarann Stefán Jakobsson sem er hvað þekktastur fyrir að syngja með hljómsveit sinni Dimmu til að ljá nokkrum laganna rödd sína en Magnús Þór sjálfur var í hlutverki kynnis og sagði áheyrendum sögur af lögunum og ferli sínum.

Í gærkvöldi hélt sveitin tónleika í Reykjahlíðakirkju á Mývatni fyrir fullri kirkju. Það má því fastlega gera ráð fyrir mikilli stemningu á Akureyri í kvöld.