Umhverfisráðherra stóð fyrir gróðursetningu í Ölfusi

Fimmtudagurinn 14. júní er dagur sem vert er að muna hér í Ölfusinu. Það má segja að þá hafi verkefninu Þorláksskógar formlega verið ýtt úr vör, þegar starfsfólk umhverfis-og auðlindaráðuneytisins kom á svæðið til að kolefnisjafna starfsemi ráðuneytisins. Ráðuneytið ákvað að kolefnisjafna næstu tvö ár stafssemi sinnar með því að gróðursetja þúsund birkiplöntur í landgræðslu-og skógræktarsvæði í nágrenni Þorlákshafnar.

Ráðuneytið senti frá sér tilkynningu en þar kemur fram að áhersla sé á að draga úr losun í starfsemi ráðuneytisins, en kolefnisjöfnun með gróðursetningu sé síðan notuð til að vega upp á móti þeirri losun sem ekki sé unnt að fyrirbyggja. Aðallega sé um að ræða losun vegna samgangna og þá ekki síst millilandaflugs.

Er átakið liður í svokölluðum Grænum skrefum í ríkisrekstri sem snúast um að efla vistvænan rekstur ríkisins með kerfisbundnum hætti.

„Forstöðumenn allra þeirra stofnana sem heyra undir umhverfis- og auðlindaráðherra undirrituðu fyrir skemmstu yfirlýsingu um að setja fyrir lok árs loftslagsmarkmið fyrir stofnanir sínar, þar sem meðal annars er gengið út frá því að starfsemi þeirra verði kolefnishlutlaus með öllu.

Það var því samankominn fríður hópur fólks úr ráðuneytinu, Skógræktinni, Landgræðslu ríkisins, starfsmenn og bæjarfulltrúar, núverandi og fráfarandi, sveitarfélagsins, sem og þeir einstaklingar sem lengst af hafa fylgt verkefninu úr hlaði.

Það ber að þakka umhverfis- og auðlindarráðuneytinu fyrir þessa vinnu og vonandi verður þetta verkefni áskorun á aðrar stofnanir og fyrirtæki, því öll þurfum við að taka saman höndum til að byggja upp Þorláksskóga.

-Fréttin er af vefnum www.olfus.is.