Framkvæmdir við fimleikaviðbyggingu við íþróttahúsið eru skemur á veg komnar en áætlað var og ljóst er að framkvæmdir munu ekki klárast fyrr en árið 2019.

Þetta kemur fram í minnisblaði frá Eflu sem tekið var fyrir á bæjarráðsfundi í gær.

Búið er að framkvæma fyrir tæpar 35 m.kr. en það er eingöngu um 16% af áætluðum kostnaði verksins. Gróf kostnaðaráætlun miðar við að heildarkostnaður við verkið muni verða tæpar 219 m.kr.

Í minnisblaðinu kemur fram að framleiðsla á límtré er ekki áætlað fyrr en í fyrsta lagi í nóvember og enn þá á eftir að ákveða og hanna ýmislegt í byggingunni og mun það hafa töluverð áhrif á endanlega kostnað við verkið.

Bæjarráð fól bæjarstjóra að láta ljúka fullnaðarkostnaðarmati við verkið og í framhaldi af því að vinna áfangaskipta verkáætlun og leggja fyrir bæjarráð til umfjöllunar. Í framhaldi af því verði verkið eftir atvikum boðið út og/eða samið um einstaka liði þess þannig að hægt verði að taka viðbygginguna í notkun fyrir skólaárið 2019-2020.