Græni drekinn snýr aftur!

Stuðningsmannasveitin Græni drekinn er vaknaður eftir væran blund en þeir stefna á að láta til sín taka í stúkunni í Domino’s deildinni í vetur.

„Það er stefnan að ná alla vega öllum heimaleikjum með góðum dreka svo sjá hvert það mun leiða okkur,“ segir Halldór Rafn Ágústsson en hann er í forsvari fyrir Græna drekann.

Græni drekinn var stofnaður árið 2011 eftir að Benedikt Guðmundsson kom Þórsurum upp í úrvalsdeild tímabilið 2010-2011. Græni drekinn var án efa sjötti maður Þórsara enda fylgdi þeim gífurleg læti úr stúkunni og góður stuðningur við Þórsara. Síðustu ár hefur þó farið mun minna fyrir drekanum.

„Ef mannskapur næst og þorpið nær að sameinast þá kemur ekkert annað til greina en að fylgja liðinu á útileiki! Ef Græni drekinn fær stuðning frá fyrirtækjum eða félaginu varðandi rútukostnað þá væri heldur betur hægt að gera eitthvað gott úr þessu,“ segir Halldór Rafn að lokum.