Í ágúst kynntum við nýjan lið hjá okkur sem við kölluðum „Nýr bæjarstjóri tekinn á beinið“ þar sem við buðum íbúum að senda inn spurningar til Elliða Vignissonar. Höfum við nú þegar birt fyrstu 6 spurningarnar ásamt svörum frá Elliða. Hér koma síðustu spurningarnar.
Viljum við hjá Hafnarfréttum þakka þeim sem sendu inn spurningar en jafnframt hvetja íbúa til að senda áfram á okkur spurningar og ábeningar um fréttatengt efni.
Hvernig leggst starfið í þig og hvað vilt þú leggja áherslu á?
Starfið leggst mjög vel í mig. Ég hef nú verið lengi í þessu bransa og taldi mig mæta nokkuð vel undirbúinn til verks. Samt sem áður verð ég að vera ærlegur með það að mikið af verkefnum hér í hinu öfluga Ölfusi eru mér framandi. Í því samhengi nefni ég til dæmis Fjallskilanefnd, byggðasamlög um hitt og þetta og margt annað sem ekki reynir á þegar maður er bæjarstjóri á lítilli Eyjum. Ég nýt í þessu og mörgu öðru að taka við góðu búi af forvera mínum í starfi og því góða fólki sem gengt hefur hlutverki kjörinna fulltrúa á seinustu árum. Þá er ég líka afar þakklátur fyrir það hvernig fólk hér hefur tekið mér og veitt mér stuðning á þessum fyrstu metrum. Mitt hlutverk er náttúrulega að reka bæjarfélagið áfram af skynsemi og veita því forstöðu. Ég er ekki kjörinn fulltrúi og því fyrst og fremst ráðinn til að fylgja eftir þeim góðu stefnumálum sem bæjarstjórn hefur nú þegar kynnt í aðdraganda kosninga sem og öðrum þeim verkefnum sem hún leggur áherslu á. Persónulega hef ég mikinn metnað til að standa áfram vörð um þá miklu þjónustu sem hér er veitt og áframhaldandi áhersla á uppbyggingu atvinnulífsins. Þar eigum við mikið inni.
Á seinasta kjörtímabili var mikill kvóti seldur í burtu úr sveitarfélaginu en þrjár útgerðir seldu frá sér kvóta. Munt þú leggja áherslu á að reyna að halda öllum þeim kvóta sem eftir er í sveitarfélaginu?
Við öll sem komum að bæjarmálum leggjum af sjálfsögðu áherslu á að vernda hér og byggja upp sterkt atvinnulíf. Fiskveiðar- og vinnsla er eitt af þeim eggjum sem við viljum að séu í okkar atvinnukröfu. Trú okkar er sú að forsendur uppbyggingar sé að hvergi verði slegið af í þeirri viðleitni að bæta innrigerð okkar til að mynda með uppbyggingu hafnarinnar, áherslu á matvælavinnslu, bættar samgöngur, skynsemi í skipulagsmálum, umhverfismál og fl. Þannig tryggjum við okkar fyrirtækjum helst arðbærar forsendur og þannig bæði verndum við kvótann, og sækjum nýjan. Hið sama á svo við allar aðrar atvinnugreinar.
Mikið hefur verið talað um samgöngubætur á seinstu árum og áratugum í sveitarfélaginu en lítið gerst. Sérð þú fyrir þér að eitthvað muni breytast í því sbr. Suðurlandsveg og Þrengslin.
Já, ekki spurning. Nú þegar erum við að horfa upp á miklar bætur í Ölfusinu með vegabótum í Ölfusinu milli Hveragerðis og Selfoss. Við þurfum svo að stíga fast fram hvað varðar þrengslin og nágreni þeirra. Vegurinn er að vísu ágætu en heldur þröngur. Þá á það að vera sjálfgefið að jafn öflugt svæði og hér er njóti fyrsta flokks þjónustu hvað varðar snjómokstur og fl. Samgöngur eru síðan verkefni sem aldrei lokið í eitt skipti fyrir öll. Þau eru eins og rekstur skóla. Þau eru lifandi verkefni í þróun þar sem stöðugt þarf að vera að bregðast við.
Ert þú hættur í pólitískum átökum við fyrsta þingmann kjördæmisins? Hefur þú ekki áhyggjur af því að sú barátta eigi eftir að skemma fyrir starfi þínu sem bæjarstjóri Ölfuss?
Ég er nú búinn að vera lengi í þessum bransa og marga fjöruna sopið. Ég hef líka átt í margskonar átökum við fullt af fólki. Enn man ég til að mynda ekki eftir formanni flokksins sem ég hef ekki deilt við um eitthvað. Allir voru þeir þó vinir mínir bæði fyrir og eftir þær deilur. Þegar átökunum linnir vinnur fólk bara saman eins og ekkert hafi í skorist. Oftast nær þykir fólki meira að segja einlæglega vænt hvert um annað þótt það deili um einhver málefni. Það sæmir enda ekki fólki sem býður sig fram til opinberrar þjónustu að láta persónuleika sinn -eða annarra- þvælast fyrir því umboði sem þeim er falið. Ég get unnið með öllum en vissulega tel ég fólk mis gott til verka og leita þá af sjálfsögðu helst til þeirra sem ég til líklegasta til að ná árangri.