Þórsarar eru komnir í undanúrslit Domino’s deildar karla í körfubolta eftir ævintýranlegan sigur á Tindastól á Sauðárkróki í kvöld. Lokatölur 93-94 en endurkoma Þórsara var með ólíkindum og skelfur undirritaður ennþá þegar þessi orð eru rituð!
Útlitið framan af var ekki gott fyrir Þórsara og voru heimamenn mun grimmari í fyrri hálfleik og leiddu 52-35 þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik. Mikið jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta en síðasti leikhlutinn var ótrúlegur hjá Þórsurum. Liðið saxar jafnt og þétt niður forskot Tindastóls og sóknir heimamanna urðu mjög þungar eftir frábært leikhlé Baldurs þar sem hann skipar liðinu að taka Brynjar Björnsson, leikmann Tindastóls, úr umferð.
Þegar 7 sekúndur lifðu leiks, í stöðunni 93-92 fyrir Tindastól, stelur Kinu Rochford boltanum og gefur fram á Halldór Garðar sem setur niður ótrúlegt sniðskot og fær villu að auki. Þessi karfa reyndist sigurkarfa leiksins í hreint út sagt ótrúlegum leik og var þessi leikur skýrt dæmi um það að Þórsarar gefast aldrei upp sama hver staðan er!
Eftir leik Njarðvíkur og ÍR sem er í gangi núna ræðst hvaða liði Þórsarar mæta í undanúrslitum.