Ráðgefandi starfshópar í stað menningarnefndar

Ný gjaldskrá Versala, Hafnardagar og fleiri fréttir frá fundi Markaðs- og menningarnefndar

Grétar Ingi Erlendsson, formaður markaðs- og menningarnefndar Ölfuss.

Markaðs- og menningarnefnd fundaði 20. mars síðastliðinn og var það fyrsti fundur nefndarinnar síðan í desember 2019. Eins og lesendur Hafnarfrétta vita hefur mikil umræða skapast um farveg menningarmála í sveitafélaginu eftir að tillögur um breytingar á stjórnsýslunni voru kynntar í kjölfar stjórnsýsluúttektarinnar. Við fengum Grétar Inga Erlendsson, formann markaðs- og menningarnefndar, til að svara nokkrum spurningum til þess að leyfa lesendum Hafnarfrétta að fylgjast með gangi mála.

Í fundargerð menningarnefndar kemur fram að gera eigi breytingar á gjaldskrá Versala svo hún henti betur einstaklingum í sveitafélaginu. Getur þú sagt okkur aðeins frá því?
,,Hugmyndin er sem sé að reyna að auka nýtinguna á húsinu. Með því að breyta gjaldskránni á þessa vegu getur fólk leigt salinn í styttri tíma fyrir smærri viðburði eins og barna afmæli, stutta fundi og annað þvíumlíkt. Vonandi verður þetta til þess fallið að fá meira líf í húsið og að íbúar geti notið þessarar frábæru aðstöðu sem við eigum”.

Þá er einnig minnst á að Hafnardagar verða haldnir 9.-11. ágúst, má búast við einhverjum breytingum á hátíðinni?
,,Þetta árið munum við ráða verkefnastjóra sem mun sjá um utanumhald hátíðarinnar og bindum við miklar vonir til þess að viðkomandi hjálpi okkur að setja hátíðina á næsta stig. Þó má alveg búast við því að haldið verði í einhverjar hefðir. Hafnardaganefnd, sem er skipuð af starfsmönnum sveitarfélagsins eins og önnur ár, mun að sjálfsögðu starfa náið með verkefnastjóranum til að tryggja að allt sé eins og best verði á kosið.

Þá bindum við vonir til að fá fleiri fyrirtæki til að koma að hátíðinni og auglýsi ég hér með eftir öflugum aðilum úr atvinnulífinu til að taka þátt”.

Nú leggur nefndin það eindregið til að undir bæjarráði verði tveir ráðgefandi starfshópar, annar í menningarmálum og hinn í markaðsmálum. Hver eru næstu skref í þeim málum? Má búast við að þessir tveir ráðgefandi starfshópar muni vera virkjaðir og ef svo verða þeir starfandi með reglulegum hætti út kjörtímabilið?
,,Breytingarnar taka ekki gildi fyrr en í maí ca. þannig að starfandi menningarnefnd mun funda aftur í apríl. Unnið er að loka útfærslunni sem mun vonandi liggja fyrir áður en breytingarnar taka gildi. Það er alveg ljóst að hóparnir komi til með að vera virkjaðir. Starfið getur hins vegar verið óreglulegt þar sem að fundað er eftir þörfum þ.e. þegar verkefni liggur fyrir getur hópurinn fundað ört en sjaldnar þegar lítið liggur fyrir. Til að taka dæmi um verkefni mætti nefna stefnumótun í menningarmálum, mótun áfangastaðaáætlunar og mótun atvinnumálastefnu fyrir sveitarfélagið”.

Einnig lagði nefndin það eindregið til að Fjármála- og stjórnsýslusvið verði nefnt Fjármála- stjórnsýslu- og menningarsvið. Hverjar eru líkurnar á að þessi breyting verði gerð á nafni sviðsins?
,,Það eru 100% líkur á því þar sem að tillagan var samþykkt í seinni umræðu síðastliðinn fimmtudag”.

Eitthvað annað sem þú vilta að komi fram?
,,Nei, ég vona bara að ég hafi náð að útskýra þessar breytingar í grófum dráttum en ef fólk hefur einhverjar spurningar þá má að sjálfsögðu senda mér póst á gretar@olfus.is og eins bendi ég á að hægt er að senda ábendingar á olfus@olfus.is“