Eins og greint var frá í gær þá lýsti Elliði Vignisson, bæjarstjóri Ölfuss, yfir áhuga á að halda tónlistarhátíðina Secret Solstice í Ölfusi ef leitað yrði til bæjarstjórnar með hugmyndir um slíkt.
Nú er svo komið að Elliði hefur fundað með forsvarsmönnum hátíðarinnar og horfa þeir núna meðal annars til Ölfussins sem nýja staðsetningu Secret Solstice.
„Hér í hamingjunni höfum við það fyrir reglu að segja ekki „nei“ áður en við höfum sagt „kannski“. Við skoðum málin yfirvegað, reynum að finna leiðir til að styðja við hugmyndir og snúa vandamálum í verkefni.“ Segir Elliði á Facebook síðu sinni.
Elliði segir fundinn hafa verið fyrst og fremst samráðsfundur þar sem ekkert var ákveðið heldur voru ákveðnir staðir í sveitarfélaginu ræddir. „Allir eiga líklegustu staðirnir það sammerkt að vera vel utan þéttbýlisins í höfuðborg hamingjunnar, Þorláksheaven,“ segir Elliði.
„Við sem funduðum ákváðum að halda samtalinu áfram. Við vorum líka allir sammála um að ef ákveðnum forsendum er mætt þá er Ölfusið hér í útjarði borgarinnar einkar heppilegt til þessa að hýsa hátíð sem þessa. Ef ekki í ár þá fyrr en seinna.“
Þá greindi Vísir.is frá því í dag að Secret Solstice eigi í viðræðum við Fákasel í Ölfusi um mögulegan hátíðarstað.