Stefnir í metmætingu á Brassrokk í Þorlákshöfn

Frábærar viðtökur – mögnuð stemning!

Nú styttist í Brassrock-stórtónleika Lúðrasveitar Þorlákshafnar en þeir verða í Íþróttamiðstöð Þorlákshafnar á morgun laugardaginn 13. apríl kl. 15:00. Þar mun lúðrasveitin rokka og róla ásamt þeim Eyþóri Inga Gunnlaugssyni stórsöngvara og Þráni Árna Baldvinssyni gítarleika Skálmaldar. Efnisskráin er ekki af lakari endanum þar sem rödd Eyþórs fær að njóta sín og gítarleikur Þráins leikur stórt hlutverk við undirleik rokklúðanna. Eyþór Ingi, sem einnig er þekktur fyrir uppistand og eftirhermur, verður kynnir á tónleikunum og það er ekki mjög leiðinlegt að verða vitni að því!

Íþróttasalnum verður breytt í rokkhöll, án þess þó að ljóstra of miklu upp!

Um er að ræða seinni tónleika af tveimur. Fyrri tónleikarnir fóru fram sl. miðvikudagskvöld í Seljakirkju í Reykjavík og er óhætt að fullyrða að stemmingin hafi verið góð þegar rokkað var upp í rjáfur í guðshúsinu. Og það er hægt að lofa að stemningin og upplifunin sem mun verða á Brassrock í Þorlákshöfn verði ekki síðri en þar mun íþróttasal verða breytt í rokkhöll án þess þó að ljóstra of miklu upp! Nú þegar hafa viðtökurnar verið frábærar og forsala miða farið fram úr björtustu vonum. En nægt er plássið og eru áhugasamir hvattir til þess að næla sér í miða á midi.is eða mæta við innganginn á morgun þar sem miðasalan opnar kl. 14.

Beðið eftir að ganga inn á tónleikana s.l. miðvikudagskvöld

P.s. Fyrir þá sem ætla að skella sér á leik Þórs og KR í Reykjavíkinni um kvöldið er þetta hin fullkomna upphitun þar sem hver rokkslagarinn og pepplagið á fætur öðru rekur sig í dagskránni.
We are the champions!