Vatnsfyrirtækið Icelandic Glacial í Ölfusi stefnir á að koma kannabis-drykk á markað en um er að ræða drykk sem inniheldur kannabídíól (CBD) sem er eitt af virku efnunum í kannabisplöntunni. Viðskiptablaðið greinir fyrst frá.
Icelandic Glacial vinnur nú að þróun drykkjarins og skrifaði fyrirtækið undir þriggja ára samstarfssamning við bandaríska fyrirtækið Youngevity International í byrjun árs.
„Við erum að þróa verkefni með þeim þar sem við verðum komin með kannabisvatn eða CBD-vatn með lækningamætti,“ segir Jón Ólafsson, stjórnarformaður og stofnandi Icelandic Glacial í samtali við Viðskiptablaðið.
Jón segir að CBD sé sá hluti jurtarinnar sem gefur enga vímu heldur hjálpar fólki við ýmsa kvilla og verki og tekur fram að CBD olía sé seld yfir búðarborðið í flestum löndum Evrópu en þó ekki á Íslandi.
Hann stefnir á að drykkurinn verð seldur víðsvegar um heiminn. „Við hugsum á heimsvísu í öllu sem við gerum. Þannig að um leið og það fæst leyfi í einhverju landi þá fer varan þar inn,“ segir Jón.