Bæjarstjóri segir sveitarfélagið leggjast gegn endurnýjun starfsleyfi á sama stað í sömu mynd
Á seinasta fundi Heilbrigðisnefndar Suðurlands fjallaði nefndin um starfsleyfi Fiskmarks ehf. vegna heitloftsþurrkunar fiskafurða í Þorlákshöfn. Samþykkti nefndin að fresta útgáfu starfsleyfis þar til málið hefur verið sett í kynningarferli í 1 mánuð.
Íbúar Þorlákshafnar eru á meðal stærstu hagsmunaaðila í þessu máli. Seinustu ár hafa loftgæði þar verið verulega skert vegna starfsemi fiskþurrkunar fyrirtækjanna tveggja Lýsis og Fiskmarks. Af þeim sökum lagði sveitarfélagið mikla áherslu á að skipuleggja nýtt iðnaðarsvæði sem hýst gæti atvinnustarfsemi sem þessa. Nú þegar hefur Lýsi komið þar upp fyrirmyndaraðstöðu og þess skammt að bíða að starfsemi þeirra flytji alfarið þangað. Eftir stendur þá starfsemi Fiskmarks.
Nú er það svo Heilbrigðisnefnd Suðurlands er með öllu sjálfstætt stjórnvald og heyrir því ekki á neinn máta undir bæjarstjórn. Væri svo mætti ljóst vera að starfsleyfi til þessarar starfsemi í þéttbýlinu yrði ekki gefin út þar sem seinast þegar málið kom til umsagnar til sveitarfélagsins í september sl. lagðist bæjarstjórn einróma gegn því að starfsleyfi yrði veitt.
Elliði Vignisson segir að afstaða sveitarfélagsins sé óbreytt:
„Við höfum hvergi dregið fjöður yfir vilja okkar til að hlúa vel að fyrirtækjum sem hér eru og leggjum ríka áherslu á að eiga jákvæð samskipti við fulltrúa þeirra. Við erum því tilbúin til að leita allra leiða til að freista þess að saman geti farið hagsmunir fyrirtækisins og íbúa. Í okkar huga er fullreynt að slíkt er ekki mögulegt með því að veita áframhaldandi starfsleyfi á sama stað í sömu mynd. Við munum því nú sem fyrr leggjast eindregið gegn endurnýjun starfsleyfis Fiskmarks.“
Elliði bendir á að Fiskmark hafi nú haft rúmlega tvö ár til úrbóta og/eða flutnings í þeirri vissu að bæjarstjórn myndi leggjast gegn framlengingu starfsleyfisins.
„Þetta mál skiptir miklu fyrir búsetugæði hér í okkar góða bæ og til marks um það þá hafa íbúar í a.m.k. 50 skipti kvartað formlega undan lyktamengun frá þessari. Ætla má að þar sé einungis um toppinn á óánægjuísjakanum að ræða.“
Elliði segir að sveitarfélagið taki slíkar kvartanir alvarlega og ætlist til þess að Heilbrigðiseftirlitið geri það einnig enda um hollustuhætti og búsetugæði að ræða.
Íbúar geta kynnt sér málið nánar með því að lesa sér til um málið hér: https://www.hsl.is/2019/05/starfsleyfi-til-kynningar-fiskmark-ehf/
Eins og fyrr segir þá er kynningarferlið í gangi og geta íbúar skilað inn athugasemdum sínum, ef þeir hafa eitthvað út á málið að setja, með því að senda póst merktan „Athugasemd vegna starfsleyfis Fiskmarks ehf.“ á hsl@hsl.is fyrir 6. júní nk.