Um þrettánhundruð manns frá 90 þjóðríkjum gróðursettu í Þorláksskógum í síðustu viku

Loftlagsmál eru mikið í umræðunni og vaxandi áhugi er á því að leggja sitt að mörkum til að bæta sótspor sitt með því að gróðursetja tré til að binda kolefni. Við í verkefnastjórn Þorláksskóga finnum vel fyrir þessum áhuga og reynum að mæta þessum óskum eins og við getum.

Í síðustu viku var mjög fjölmenn, aðþjóðleg hárgreiðsluráðstefna haldin í Hörpu. Forsvarsmenn ráðstefnunnar og framleiðendur hárvörumerkisins Davinsis sem er umhverfisvænar hárvörur óskuðu eftir því að þátttakendur ráðstefnunnar gætu komið og gróðursett tré til að kolefnisjafna för sína til landsins.

Klipptir voru gróðlingar af Alaskaösp, Hreggstaða og Jörvavíði sem þátttakendur stungu í sandinn. Stefnt var að því að hver og einn fengi einn græðling en margir settu niður mun meira. Um þrettánhundruð manns tóku þátt í verkefninu sem stóð yfir í þrjá daga. Mikil ánægja var með þetta framtak og allt gekk mjög vel upp.

Á næstu tveimur vikum tökum við á móti fjórum hópum sem hafa óskað eftir að leggja sitt af mörkum í að binda kolefni með því að gróðursetja tré, en nú í vor höfum við 20 þúsund birkiplöntur til ráðstöfunar og annað eins í haust. Á næstu árum margfaldast fjöldi trjáa sem ráðstafað verður til Þorláksskóga.

Þorláksskógar eru samstarfsverkefni Sveitarfélagsins Ölfuss, Skógræktarinna og Landgræðslu ríkisins. Fjármagn vegna plöntu og áburðarkaupa koma frá ríkinu og öll fagleg ráðgjöf og áætlunargerð vegna uppgræðslu og gróðursetningar er í höndum Skógræktinnar og Landgræðslunnar og sveitarfélagið sér um skipulagsmál á svæðinu s.s. stíga og áningastaði og fl.

Mikilvægt er að einhver haldi utan um þetta verkefni, taki á móti hópum og stýri gróðursetningum. Sá aðili þarf að laða að fyrirtæki og stofnanir og hvetja til kolefnisjöfnunar, þetta gerist ekki að sjáfu sér. En með því stóraukum við virði verkefnisins. Þorláksskógar er mjög vel í sveit sett og svæðið aðgengilegt fyrir móttöku á hópum til gróðursetninga. Ölfusingar eiga alla möguleika á að vera til fyrirmyndar í bindingu kolefni með skógrækt ef við stöndum vel að málum.

Hrönn Guðmundsdóttir
Formaður verkefnastjórnar Þorláksskóga