Þorpið iðaði af lífi – myndir!


Á þriðjudaginn síðasta breyttust nemendur Grunnskólans í Þorlákshöfn í samfélagsþegna í fríríki sem kallast Þorpið. Í Þorpinu er starfrækt kaffihús, bakarí, sultugerð og tívolí, málmsmiðja, rammalistafyrirtæki, saumastofa, tölvuleikjastöð, trésmiðja, listasmiðja, nytjamarkaður, frístund, banki, dagblað og kökuskreytingafyrirtæki og ganga nemendur í öll störf Þorpsbúa.

Nemendur sendu inn atvinnuumsóknir á dögunum og var úthlutað störfum eftir óskum. Allir fengu greitt fyrir sín störf í gjaldmiðli fríríkisins, svonefndum þollara, sem nemendurnir, eða réttara sagt Þorpsbúarnir, gátu síðan notað til þess að kaupa ýmsan varning og góðgæti.

Andlitsmálun og tívolí Þorpsins

Í morgun kl. 11 opnaði Þorpið fyrir gesti og gangandi sem gátu skipt íslenskum krónum í þollara og notið alls þess sem Þorpið hafði upp á að bjóða að þessu sinni og þar var sko nóg í boði og eitthvað fyrir alla.

Hafnarfréttir létu sig ekki vanta, komu við á kaffihúsinu Hamingjukaffi þar sem dýrindis kræsingar voru bornar fram, keypti jarðaberjasultu sem var að sjálfsögðu framleidd í Þorpinu, tímarit Þorpsins og leikfang á flóamarkaðnum svo eitthvað sé nefnt. Í Þorpinu var einnig hægt að fara í tívolí, andlitsmálningu, taka með sér köku heim úr Gleðibakaríinu, kaupa blómaker, fjölnota taupoka, skartgripi, listaverk og svona mætti lengi telja.

Gleðin og einbeitingin skein úr andlitum allra nemenda og kennarar virtust einnig skemmta sér vel. Þá var gaman að sjá hversu ólíkir gestir gerðu sér ferð í Þorpið, þarna mátti sjá foreldra, ömmur og afa, eldri og yngri systkini og fleiri áhugasama.

Til hamingju allir Þorpsbúar með þetta glæsilega verkefni!

Það var nóg að gera í Hamingjukaffi
Eins og í öllum alvöru tívolíum var að finna poppvél í tívolíi Þorpsins
Lukkuhjól í tívolíinu
Það var mikið úrval af allskonar í flóamarkaði Þorpsins
Allt á sannkölluðum spottprís
Kökurnar sem Þorpsbúar bjuggu til voru eins og listaverk
Stöðug traffík í Hamingjukaffi
Hér voru nokkrir Þorpsbúar búnir að búa til tölvuleiki sem hægt var að prófa
Mikið úrval af listaverkum
Glæsilegir skartgripir og myndlist til sölu
Lyklakippur úr málmi
Eyrnahlífar til að setja á hjálma og fjölnota taupokar voru á meðal þess sem hægt var að kaupa í versluninni Spor í rétta átt
Blómaker og dagatalskubbar
Gleðibakaríið var svo vinsælt að það seldist allt upp
Grunnskólinn í Þorlákshöfn