Það var líf og fjör á bryggjunni á sjómannadaginn og mikil þátttaka í dagskrá björgunarsveitarinnar, enda veðrið með besta móti.
Það voru bátarnir Jóhanna og Jón á Hofi sem sigldu með gesti út fyrir Þorlákshöfn og að venju var boðið upp á gos og súkkulaði um borð. Þegar þeir komu aftur í höfn tók við dagskrá þar sem mikil eftirvænting ríkti fyrir sjó-boðsundskeppninni sem var nýr dagskráliður. Það var lið Smyril Line sem sigraði en keppnin var æsispennandi og áhorfendur supu reglulega hveljur enda eitthvað um magaskelli og svakalegar dýfur.
Það var fullt út úr dyrum á kaffihlaðborði björgunarsveitarinnar og hlaðborðið svignaði undan veitingum sem gestir gæddu sér á yfir fallegum tónum Örnu Daggar Sturludóttur og Aðalbjargar Halldórsdóttur.
Venju samkvæmt hófst dagurinn á sjómannadagsmessu sem var sérstök að því leiti að um síðustu hefðbundnu messu Sr. Baldurs var að ræða. Kirkjugestum var boðið upp á kaffi og nýbakaðar kleinur að því tilefni.