Lúðrasveit Þorlákshafnar með 8. liðið – Sjáumst öll á sjómannadaginn!

Þá er sjómannadagurinn að bresta á og veðurspáin með besta móti svo búast má við að Þorlákshafnarbúar fjölmenni á bryggjuna og taki virkan þátt í hátíðarhöldum.

Það fylgjast margir spenntir með framvindu mála í sjó-boðsundskeppninni og standa málin nú þannig að átta lið eru skráð í keppnina og eru það þessi
Starfsfólk Leikskólans Bergheima
Starfsfólk Grunnskólans í Þorlákshöfn
Starfsfók bæjarskrifstofunnar
Starfsfólk íþróttamiðstöðvarinnar
Slátturvélagengi Þorlákshafnar
Áhöfn Fróða
Starfsfólk Smyril Line
Lúðrasveit Þorlákshafnar

Liðum er bent á að vera mætt ekki seinna en kl. 13 eða um leið og bátarnir koma aftur í höfnina að skemmtisiglingu lokinni. Þau eiga að safnast saman inn í Herjólfshúsinu þar sem farið verður yfir leikreglur en þær má einnig finna hér.
Enn geta áhugasamir myndað þriggja manna lið og skráð sig til leiks og er það gert í gegnum facebook síðu Björgunarsveitarinnar.

Á bryggjunni verður dagskrá sem hefst þegar bátarnir koma aftur í höfnina eftir skemmtisiglinguna sem hest kl. 12.30. Þar verður að finna hoppukastala, candy floss, andlitsmálun, krítar til að lita með og hinar geysivinsælu humlur, sem Þórsarar selja í fjáröflun. Auk þess verður koddaslagurinn á sínum stað og trampolín sem adrenalínþyrstir geta notað til að stökkva í sjóinn.

Að auki verða Black Beach Tours með tilboð á Rib safari ferðum og Jaðarsport verður með kynningu á sjóbrettum við höfnina á meðan á dagskrá stendur. 

Eftir dagskrána á bryggjunni verður hefðbundið sjómannadagskaffi í ráðhúsinu sem er fjáröflun fyrir Björgunarsveitina Mannbjörg og eru allir hvattir til að styðja við starf þeirra með því að mæta þar og gæða sér á kræsingum og njóta tónlistaratriðanna sem verða í boði.

Einnig er rétt að minna á sjómannadagsmessuna sem hefst kl. 11 og verður kirkjugestum boðið að þiggja veitingar að lokinni athöfn í tilefni þess að sr. Baldur er að láta af störfum.

Að lokum langar okkur á Hafnarfréttum að hvetja þau ykkar sem eigið fánastangir til að flagga, enda sannkallaður hátíðisdagur!