Grunnskólinn í Þorlákshöfn settur í 57. skiptið

Skólasetning var haldin í Grunnskólanum í Þorlákshöfn í morgun, miðvikudaginn 21. ágúst. Skólasetningin var haldin í tvennu lagi, enda nemendahópurinn orðinn stór, en alls eru 233 nemendur skráðir í skólann þetta haustið. Nemendum hefur fjölgað um 13 frá því skólinn var slitinn síðasta vor og hefur fjölgun nemenda verið vaxandi frá árinu 2015 þegar fjöldinn fór niður í 198 og helst þannig í hendur við fjölgun íbúa í Þorlákshöfn.

Ólína Þorleifsdóttir, skólastjóri, sagði í ræðu sinni að hlutverk skóla í hverju samfélagi væri ákaflega mikilvægt og að í litlu samfélagi væri það enn mikilvægara:
,,Góður skóli er lykilatriði til dæmis þegar kemur að því að fjölskyldur velji sér stað til þess að setjast að á. Orðspor skólans okkar hefur ávallt verið jákvætt og það er áskorun fyrir okkur sem samfélag að halda því jákvæða orðspori. Jákvæðan skólabrag má þakka mörgum samverkandi þáttum framúrskarandi starfsfólki, frábærum nemendum og foreldrum og metnaður af hálfu sveitarfélagsins varðandi umgjörð og aðstæður. En ekki síst hve samfélagið sýnir skólanum mikla velvild. Sú velvild kemur fram á margvíslegan máta. Til dæmis hafa félagasamtök alltaf stutt dyggilega á bak við skólastarfið.
Dæmi um slíkan stuðning er að í næstu viku bjóða Kiwanismenn hér í bæ öllum nemendum í 8. -10. bekk í ævintýra- og útivistarferð í Þórsmörk sem er eins og allir vita ein af náttúruperlum Íslands. Velvild og hlýhugur samfélagsins gagnvart skólastarfinu er ómetanlegur

Við hjá Hafnarfréttum óskum nemendum og starfsfólki skólans velfarnaðar á skólaárinu 2019-2020 og hlökkum til að fylgjast með og segja frá því skemmtilega starfi sem þar fer fram.