Glöggir vegfarendur um Selvogsbrautina í Þorlákshöfn hafa líklega rekið augun í stórt og tignarlegt listaverk á bílskúr við hlið Meitilsins eða nánar tiltekið á norðurhlið bílskúrsins hjá Tolla og Ingu á Skálholtsbraut 17.
Höfundur listaverksins er Þorlákshafnarbúinn Ágústa Ragnarsdóttir, myndlistarkona og grafískur hönnuður en hún vinnur undir merkjum Argh!
Hafnarfréttir heyrðu í Ágústu og vildu forvitnast meira um þetta frábæra listaverk og hvernig það varð til.
„Það má líklega rekja það um tvö ár aftur í tímann ef út í það er farið. Þá hannaði ég mynd á gafl við veitingastaðinn Meitilinn. Sú mynd var þannig úr garði gerð að ég bauð fólki að koma og mála hana með mér samkvæmt forskrift og gerði það að viðburði tengdan þáverandi Hafnardögum. Sú mynd skreytir enn þann gafl. Tolli átti næsta vegg við þennan hópmálaða og fylgdist hann áhugasamur með verkinu og skaut því að mér að hann langaði í eitt stykki verk á sinn vegg, svona þegar viðgerðum og viðhaldi þar væri lokið… sem gerðist nú í sumar. Þannig að við Tolli fórum aftur að tala saman og þetta er útkoman,“ segir Ágústa.
En hver er innblásturinn í verkinu? „Innblásturinn er fenginn frá Hafnarbjarginu okkar yndisfagra hér við Þorlákshöfn en þangað fer ég sjálf oft og nota það svo sem innblástur í mörg verka minna.“
Ágústu hefur lengi langað til að setja upp stóra „Ágústu“ mynd en svona verk eru tímafrek og segir hún að ekki hafi verið svigrúm í nokkur ár til þess að njóta tiltölulegrar frjálsrar vinnu. „Það má segja að undanfarna mánuði hafi ég virkilega gefið listinni meiri tíma enda veit ég fátt betra en að gleyma mér við þá vinnu og veggjalist er hreinasta hugleiðsla.“
Langar þig að gera meira af þessu? „Ég er í sjálfu sér með fjölda hugmynda en sem fyrr segir snýst þetta líka um tíma sem og peninga og að fá að vinna sjálfstætt að sínum verkum. Margir hafa komið á máli við mig þegar ég fer af stað í einhver svona sýnileg verkefni og ég er geim… ef fólk vill borga sanngjörn laun,“ segir Ágústa að lokum.
Hafnarfréttir vilja benda á að Ágústa er með heimastúdíó að Reykjabraut 19 sem er opið ef einhver er heima – sem er oft að sögn Ágústu.