Auður Helga heldur áfram að gera frábæra hluti í boltanum

Landsliðsþjálfari U15 kvenna valdi á dögunum hóp fyrir úrtaksæfingar KSÍ sem fara fram í lok janúar og er Auður Helga Halldórsdóttir, leikmaður 3. fl. Ægis þar á meðal. Frábær árangur hjá Auði sem hefur mikinn metnað fyrir því að standa sig vel í fótboltanum. Hópinn skipa að stórum hluta leikmenn úr Breiðablik og Val og er gaman að geta þess að Auður Helga er eini leikmaðurinn af Suðurlandinu.

Barna- og unglingaráð Ægis er afar stolt af því að eiga leikmann í 29 manna úrtakshóp alls staðar að af landinu og fannst ærið tilefni til að spyrja þessa ungu og stórefnilegu fótboltastelpu nokkurra spurninga.

Auður, hvenær byrjaðirðu að æfa fótbolta og af hverju?
Ég byrjaði átta ára gömul af því að besta vinkonan mín æfði fótbolta. Ég lék mér líka mikið í fótbolta úti á lóð með bróður mínum sem var duglegur að hvetja mig áfram.

Hvað er skemmtilegast við fótbolta?
Þegar maður upplifir sig óstöðvandi og stefnir í áttina að markinu og kemst í gegnum hindranir og horfir á eftir boltanum í netið.

En leiðinlegast, ef eitthvað?
Það er nú sjaldnast leiðinlegt í fótbolta en auðvitað svekkjandi þegar illa gengur. En þá reynir maður bara að hugsa um að gera betur næst.

Ertu með keppnisskap?
Já, töluvert. En ég reyni eftir fremsta megni að fara vel með það.

Hvað myndirðu segja að skipti mestu máli til að ná árangri í fótbolta?
Ég tel að rétt hugarfar skipti mjög miklu máli, allar aukaæfingar þó ekki sé nema að vera úti á lóð að halda á lofti og að sjálfsögðu að vera dugleg að mæta á æfingar.

Hvaða ráð myndirðu gefa yngri stelpum og strákum sem eru að stíga sín fyrstu spor í fótboltanum?
Aldrei að gefast upp. Hafa metnað fyrir hlutunum og leggja sig alltaf pínu extra fram. Það skilar góðum árangri.

Auður, – eitthvað að lokum?
Já, fótbolti er frábært sport og ég hvet alla til að prófa að mæta á æfingu.