Vilja beita öflugu hvatakerfi fyrir dagforeldra

Óvissa hefur ríkt meðal foreldra ungra barna í Þorlákshöfn vegna stöðu leikskólamála og dagmæðrakerfisins í bæjarfélaginu. En vegna mikillar íbúafjölgunar stefnir, ef ekkert er að gert, í biðlista á leikskólanum Bergheimum sem og hjá dagmæðrum með tilheyrandi vandamálum fyrir fjölskyldufólk.

Á fundi Fjölskyldu- og fræðslunefndar á miðvikudaginn kynnti Elliði Vignisson bæjarstjóri aðgerðaráætlun Ölfuss hvað varðar daggæslu og leikskólaþjónustu árið 2020. Hann sagði að heilt yfir væri staðan nokkuð góð og biðlistar mun styttri en í nágrannabyggðunum. Elliði tók þó fram að þörf væri á endurskoðun þjónustustigs vegna fjölgunar íbúa og breyttra þarfa foreldra.

Í minnisblaði sem lagt var fram á fundinum er lagt til að fimm þættir verði sérstaklega skoðaðir:

1. Úttekt á þjónustu leikskóla
Eins og komið hefur fram hefur verið kallað eftir úttekt skóla- og velferðarþjónustu á leikskólaþjónustu í Ölfusi. Tilgangurinn er að greina styrkleika og veikleika með það að leiðarljósi styrkja þjónustunetið. Vinnan er þegar hafin og niðurstöðu að vænta fljótlega. Úttektin verður veganesti að frekari eflingu þjónustu leikskóla.

2. Dagforeldrar
Dagforeldrakerfið er sveitarfélaginu og íbúum þar gríðarlega mikilvægt. Mikilvægt er að finna leiðir til að styrkja það. Það þarf sérstaklega að skoða þann möguleika að sveitarfélagið beiti öflugu hvatakerfi fyrir dagforeldra og tryggi þannig mikilvæga þjónustuþátt. Lagt er til að:

A. Niðurgreiðsla verður hækkuð um 30%. Niðurgreiðsla fyrir mánaðarklukkustund fari úr 4.000 í 5.200, niðurgreiðsla fyrir 8 tíma þjónustu fari úr 32.000 í 41.600 kr.

B. Veittur verði húsnæðisstyrkur til dagforeldra sem nemur einni mán. klst. fyrir hvert barn sem er þjónustað.

C. Veittur verður stuðningur til leikfangakaupa og aðstöðubóta upp á 10.000 kr. per barn sem er þjónustað (gegn framvísun nótu)

D. Opið er fyrir umsóknir um styrk til stærri aðstöðubóta svo sem kaupa á fjölburavögnum, leiksvæði utandyra o.fl.

3. Stækkun leikskóla
Allt útlit er fyrir frekari fjölgun barna. Bæjarstjórn hefur þegar varið 20 milljónum á árinu 2020 til hönnunar og 150 milljónum til framkvæmda á árinu 2021. Vonir standa til að hægt verði að fjölga leikskólaplássum verulega snemma árs 2022.

4. 5 ára deild við leikskóla
Skoðað verði hvort það sé fýsilegur kostur að opna á ný svokallaða 5 ára deild við leikskólann í húsnæði grunnskólans til bráðabirgða.

5. Heimagreiðslur
Skoðað verði kostir og gallar þess að taka upp heimagreiðslur fyrir þá foreldra sem heldur kjósa þá leið fremur en þjónustu dagforeldra.

Fjölskyldu- og fræðslunefnd samþykkir frekari útfærslu þessara hugmynda en leggur áherslu á að góð samvinna verði við skólastjórnendur varðandi 5 ára deildina. Nefndin samþykkir alla liði tillögunnar varðandi dagforeldra og vill að áætlunin fari til umfjöllunar í bæjarstjórn.