Stór skref í málefnum eldri borgara

Málefni eldri borgara eru ofarlega í huga margra íbúa enda mikilvægt að hlúa vel að því dásamlega fólki sem byggt hefur upp okkar frábæra samfélag. Í aðdraganda kosninga setti D listinn sér metnaðarfull áform hvað málaflokkinn varðar og skemmst frá því að segja að vel miði áfram með þau áform. Sennilega hefur aldrei verið jafn mikið verið gert á jafn skömmum tíma en á því 1 og 1/2 ári rúmu sem liðið er frá kosningum hafa stór skref verið stigin.

Ný nálgun á húsnæðismál

Þótt hlutfall eldri borgara í Ölfusi sé lágt í samanburði við landsmeðaltal er eðlilega þörf fyrir uppbyggingu á bæði sérhönnuðu húsnæði fyrir eldri borgara sem og heppilegri íbúðagerð á almennum markaði. Með þetta fyrir augum var í byrjun þessa kjörtímabil lögð áhersla á að byggja við Egilsbraut 9 og skipuleggja stækkun á því svæði sem nýtt hefur verið fyrir íbúðir aldraðra.

Byggt á styrkleikum 9-unnar

Í upphafi kjörtímabils lágu fyrir hugmyndir um viðbyggingu á tveimur hæðum við Egilsbraut 9. Sú hugmynd var á frumstigum og með öllu ófjármögnuð. Ekkert fjármagn var í fjárhagsáætlun né hafði verið sótt um stofnframlag frá Íbúðalánasjóði vegna framkvæmdarinnar. Kostnaðaráætlanir voru ófullkomnar, byggingin ekki fullhönnuð og hugmyndin lítt útfærð. Tekin var því ákvörðun um að falla frá framkvæmdinni.

Eftir vandlega skoðun var valið að byggja á styrkleika fyrirliggjandi húsnæðis að Egilsbraut 9 og halda þróun þess áfram. Eftir grunn útfærslu arkitekta og kynningu á þeim hugmyndum var ráðist í gerð kostnaðarmats, fjármögnun, fullnaðarhönnun, breytingu á deiliskipulagi og fleiri nauðsynlegra undirbúningsþátta. Dæmin hafa enda sýnt að fas gerir engan flýti og ófullkominn undirbúningur lítt líklegur til góðrar niðurstöðu.

Haustið 2019 fékkst lánsloforð frá LS og í nóvember barst svar frá Íbúðarlánsjóði með upplýsingum um að við fengjum rúmlega 25 milljóna framlag til verkefnisins. Áætlanir gera ráð fyrir að kostnaður við byggingu 4 íbúða verði a.m.k. 115 milljónir. Arkitektateikningar voru full unnar í byrjun árs 2020 og hófst þá þegar undirbúningur að gerð verkfræðiteikninga og útboðsgagna. Fyrstu drög að útboðsgögnum eru væntanleg á næstu dögum og verkið boðið út fyrripart marsmánaðar. Reiknað er með því að íbúðirnar verði teknar í notkun árið 2020 eins og stefnt var að í upphafi.

Þrívíddarlíkan af stækkun 9-unnar.

Sér skipulagt svæði fyrir eldri borgara

Eftir samráð við eldri borgara var tekin ákvörðun um að horfa til þess að skipuleggja nýtt hverfi sem ætlað yrði til bygginga fyrir þá. Sumarið 2019 var leitað til ASK arkitekta um hönnun svæðisins og voru fyrstu drög tekin fyrir í september. Uppdráttur að fjölgun íbúða við Sunnu- og Mánabraut var þar með settur í ferli. Um er að ræða 10 nýjar lóðir fyrir rað- og parhús, samtals 20-24 íbúðir. Ný gata „Vetrarbraut“ bætist við vestan núverandi byggðar.

Vonir standa til að hægt verði að ráðast í gatnagerð við þessar nýju götur eigi síðar en á fyrri hluta árs 2021, jafnvel fyrr.

Stóraukin þjónusta við eldri borgara

Dagþjónusta á 9unni

Samhliða fjölgun íbúða við 9una var ákveðið að horfa til heildar endurskoðunar á þjónusturými 9unnar með það fyrir augum að bæta þau rými sem nýtt eru undir dagdvöl og tómstundir. Rætt hefur verið að í beinu framhaldi af framkvæmdum vegna hinna nýju íbúða verði ráðist í endurbætur þess miðrýmis þar sem í dag er svo kölluð „gryfja“ sem lítið nýtist. Horft er til þess að hönnun þeirra endurbóta hefjist þegar framkvæmdum vegna hinna nýju íbúða lýkur. Með slíkum framkvæmdum mun íbúðin sem nú er nýtt til dagvistar fara í almenna leigu og heildarviðbót íbúða þá orðnar 5.

Akstursþjónusta

Í framhaldi af áskorun félags eldri borgara um aukna akstursþjónustu var tekin ákvörðun um horfa til aukinnar samnýtingu á slíkri þjónustu fyrir aldraða og fatlaða. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2020 var áætlað fjármagn til kaupa sérhannaðs bíls til akstursþjónustu og fékkst hann afhentur um miðjan febrúar. Sviðsstjóri fjölskyldusviðs og deildarstjóri í málefnum aldraðra vinna nú að því að útfæra og samþætta aukna akstursþjónustu.

Heilsuefling og virkni

Í samræmi við stefnu sveitarfélagsins um að tryggja öldruðum félagsskap, hreyfingu, tómstundaiðju, skemmtun og heilsufarslegt eftirlit er nú unnið að útfærslu á nýju framboði af heilsutengdum verkefnum. Markmiðið er meðal annars að gera eldri borgara hæfari til að takast á við breytingar sem fylgja hækkandi aldri. Horft er til þess að auka markvissa þátttöku í þol- og styrktaræfingum auk ráðgjafar um holla næringu og aðra heilsueflandi þætti sem auðvelda fólki að spyrna við fótum gegn öldrunareinkennum samhliða því að auka samveru, bæta heilsu og lífsgæði. Verkefnið eru undir stjórn íþrótta- og æskulýðsfulltrúa sveitarfélagsins.

Þrýst á uppbyggingu hjúkrunarheimilis

Þrátt fyrir að Sveitarfélagið Ölfus sé tiltölulega ungt sé litið til landsmeðaltals er nokkuð ljóst að íbúar hér, eins og annars staðar, muni eldast. Draumur okkar allra er að hér muni rísa hjúkrunarheimili áður en langt um líður og þannig gera fólki kleift að ljúka ævikvöldi sínu í sveitarfélaginu sem það ann og hefur e.tv. alltaf búið í. Að koma á fót hjúkrunarheimili er ekki eins einfalt og kann að virðast enda er það ríkið sem byggir og rekur slíkar stofnanir. Það hjálpaði ekki heldur til að fyrrum meirihluti undirritaði samkomulag þess efnis að uppbygging næstu hjúkrunarheimila færu fram í Árborg. Það er því ljóst að langt og strembið verkefni er okkur á höndum í þessari vinnu. Þrátt fyrir það erum við hvergi bangin og höfum átt mikið og gott samtal við þingmenn okkar um að hefja þessa vinnu.

Grétar Ingi Erlendsson
Formaður bæjarráðs