Framkvæmda- og hafnarnefnd Ölfuss hafnaði öllum þeim tilboðum sem bárust í nýjan dráttarbát í Þorlákshöfn og voru öll tilboð í bátinn langt yfir kostnaðaráætlun sveitarfélagsins.
Þrjú tilboð bárust í dráttarbátinn og voru þau öll meira en helmingi dýrari en kostnaðaráætlunin gerði ráð fyrir sem var upp á 1.450.000 evrur. Það miðaðist við 12 ára gamlan dráttarbát sem hefur verið afskrifaður um allt að 50 prósent.
Eftirtalin tilboð bárust í bátinn:
- Damen, hollensk skipasmíðastöð. Boðinn er bátur á 3.068.000 evrur hingað til lands kominn. Dráttargeta 30 tonn, lengd um 20 metrar og breidd 7,7m. Tvær skrúfur og bógskrúfa.
- Lilia International Trade , kínversk skipasmíðastöð. Boðinn bátur á 3.297.000 evrur hingað til lands kominn. Dráttargeta 32 tonn, lengd 25,8 metrar og breidd 9,5m. Skrúfubúnaður tvær Azimuth.
- Navigation Maritime Bulgare, búlgörsk skipasmíðastöð. Boðinn bátur á 3.870.000 evrur. Dráttargeta um 40 tonn, lengd 27,0 metrar, breidd 10,0m . Skrúfubúnaður er Azimuth.
Sveitarfélagið Ölfus mun leita annarra leiða til að finna heppilegan dráttarbát með samningskaupum og fá til þess skipamiðlara eða annan aðila sem sveitarfélagið treystir til verksins.