Kennari í FSu greindur með COVID-19

Einn kennari Fjölbrautaskóla Suðurlands hefur verið greindur með COVID-19 veiruna en þetta kemur fram í tölvupósti sem Olga Lísa Garðarsdóttir skólameistari sendi á nemendur og forráðamenn í morgun. Sunnlenska.is greinir frá.

Umræddur kennari kom ekki í skólann í gær en hann veiktist í fyrrakvöld. Eins og aðrir framhaldsskólar þá verður Fjölbrautaskóli Suðurlands lokaður í fjórar vikur frá og með næsta mánudegi vegna samkomubannsins sem kynnt var í morgun.

„Almannavarnir vinna nú að smitrakningu vegna kennarans og segir Olga Lísa að væntanlega verði haft samband við þá aðila sem kennarinn hefur haft samskipti við síðustu daga,“ segir í frétt Sunnlenska.