Digiqole ad

Ásgeir spilar „Lag á dag“ þangað til hann fær vinnu

 Ásgeir spilar „Lag á dag“ þangað til hann fær vinnu

Eftir að Þorlákshafnarbúinn Ásgeir Kristján Guðmundsson missti vinnuna í kórónuveirufaraldrinum ákvað hann að finna sér eitthvað jákvætt að gera og byrjaði að spila og birta eitt lag á dag á Facebook síðu sinni.

Ásgeir, sem einnig er trúbador, hefur daglega sett inn lag á Facebook síðastliðna sextíu og sex daga eða frá því að hann missti vinnuna en hann sagði frá verkefninu í viðtali við Magnús Hlyn á Stöð 2 um helgina.

„Ég tók upp hjá sjálfum mér að gera „Lag á dag“ og það hefur fengið mjög góð viðbrögð. Fólk er að senda mér til baka að það hjálpi sér í leiðindunum,“ sagði Ásgeir í fréttum Stöðvar 2.

Ásgeir segist ætla að halda áfram að birta lög daglega á Facebook eða alveg þangað til hann fær vinnu en hann passar upp á það að spila aldrei sama lagið tvisvar.

„Þetta hefur algjörlega bjargað geðheilsunni minni á þessum skrýtnu tímum, vakna á morgnanna og hugsa um þetta,“ segir Ásgeir.

Hér að neðan má sjá lag númer sextíu og fimm sem Ásgeir birti í gær. Frábært framtak hjá þessum flotta tónlistarmanni.

Lag á dag. Lag nr 65

Posted by Trúbador Ásgeir Kr on Sunnudagur, 31. maí 2020