Forvarnargildi félagsmiðstöðva í minni sveitarfélögum

Þegar litið er á íslenska unglinga má sjá ótrúlega mismunandi einstaklinga og fjölbreytta hópa. Í gegnum kynslóðirnar sést hvað áherslurnar breytast gríðarlega hratt þar sem á þessu tímabili breyta unglingar um stefnu og stað á stuttum tíma. Þau kynnast nýju fólki, taka fyrstu skrefin að sjálfstæði og þroskast mikið á örfáum árum. Fólk sem vinnur með unglingum sér hvað hópar eru mismunandi, áherslur í starfi breytast og að starfið er stanslaust að þróast. Áhugamál einstaklinga eru mismunandi og í mörgum tilfellum breytast þau á meðal þeirra á þessu tímabili. Einstaklingar sem hafa æft íþróttir geta dregist aftur úr og jafnvel hætta að æfa þegar áhugi þeirra breytist og aukið frelsi í tómstundaiðkun getur leitt til margskonar áhættuhegðunar.

Í grein eftir Vöndu Sigurgeirsdóttur (2014) bendir hún á mikilvægi tómstundamenntunar. Tómstundamenntun getur bæði verið formlegt og óformlegt nám. Hún snýst um það að kenna einstaklingum að nýta frítímann sinn á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Þegar á heildarmyndina er litið eyðum við meiri tíma af ævi okkar í frítímann  heldur en við eyðum í skóla og starf til samans. Því gefur það auga leið að ef við nýtum þennan mikla tíma á neikvæðan hátt, eins og áfengisneyslu, hreyfingarleysi, depurð o.s.frv., veitir frítíminn okkur ekki mikla vellíðan og eykur það hættu á andlegum-, félagslegum- og líkamlegum vandamálum. Áhugamál og jákvæð tómstundaiðkun er okkur mjög mikilvæg og eykur líkur á heilbrigðu andlegu og líkamlegu líferni (Vanda Sigurgeirsdóttir, 2014).

Félagsmiðstöðvar hafa verið til staðar í okkar samfélagi í áratugi og sveitarfélög eru krafin um að reka unglingastarf í einhverri mynd. Hugmyndafræði félagsmiðstöðva hefur verið í stanslausri mótun síðustu áratugi. Grunnhugmyndafræðin byggist á kenningum um félagsmótun, þroska, gildi og viðmið. Fræðimenn hafa lagt áherslu á það að unglingar eigi að nota félagsmiðstöðvar til að prufa sig áfram og læra af mistökum. Þær eiga að skapa umhverfi þar sem unglingamenning getur ráðið ríkjum og þeirra þörfum þjónað. Starfið á að brúa bilið á milli skipulegrar tómstundaiðkunar, eins og íþróttafélögin o.s.frv., og í óskipulegt tómstundastarf sem einstaklingar stunda sjálfir (Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir, 2017).

Kostir lítilla sveitarfélaga eru margskonar. Þau bjóða upp á meira frelsi fyrir börn og unglinga. Unglingar geta auðveldlega farið til vina sinna, foreldrar og forráðamenn jafnvel þekkjast vel og hóparnir verða jafnvel nánari. Kosturinn við litlar félagsmiðstöðvar eru persónuleg aðkoma. Þegar unnið er rétt, getur verið auðvelt að ná til jaðarhópa og veita persónulegri þjónustu fyrir þarfir hvers einstaklings. Starfsmannahópurinn er frekar lítill og unglingarnir ná góðum tenglum við starfsfólkið. Fagfólk félagsmiðstöðva eru oft besta forvörnin, þau grípa umræðuna og fræða ungmenni á óformlegan máta, mæta þörfum þeirra í þeim umræðum sem ungmennin leita í. Félagsmiðstöðvar bjóða upp á óformlegt nám sem kennir samskipti, forvarnarvinnu, sjálfsskoðun og umgengni við mismunandi hópa samfélagsins. Þá er unnið með minni hópa sem gerir það að verkum að auðveldara er að grípa þau ungmenni sem eru ekki virk í tómstundum eða sýna áhættuhegðun. Því er nauðsynlegt að unnið sé vel að starfinu, stuðlað að fjölbreyttri dagskrá og aðstöðu til að unglingar geta prufað sig áfram í tómstundum og fundið sín áhugamál.

Að mínu mati eiga sveitarfélög að leggja mikla vinnu í félagsmiðstöðvar því þar myndast samfélög sem brúar bilið á milli jaðarhópa og mynda jafningjagrundvöll þar sem allir fá tækifæri til spreyta sig í sínum áhugamálum. Þegar starf félagsmiðstöðvar er vel unnin, eftir góðri stefnu og góðum gildum er svo auðvelt að styðja börn og unglinga í gegnum krefjandi þroskaskeið, hjálpa þeim að verða að heilbrigðu ungu fólki með sterka sjálfsmynd, hvata til að breyta rétt, jákvæða leiðtogafærni og heilbrigða samskiptahæfni. Því hvet ég sveitarfélög, stór og smá, að vanmeta ekki forvarnargildi félagsmiðstöðva heldur að auka virkni, metnað og sveigjanleika til að vinna metnaðarfullt starf.

Sigurhanna Björg Hjartardóttir

Greinin var fyrst birt á www.fritiminn.is

Heimildir:

Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir. (2017). Félagsmiðstöðvar barna og    unglinga. Í Alfa Aradóttir, Eygló Rúnarsdóttir og Hulda Valdís Valdimarsdóttir (ritstjórar), Frístundir og         fagmennska: Rit um málefni frítímans (bls. 109-121). Félag fagfólks í frítímaþjónustu, Félag íþrótta-, æskulýðs- og tómstundafulltrúa á Íslandi og Rannsóknarstofa í tómstundafræðum.

Vanda Sigurgeirsdóttir. (2014). Tómstundamenntun. Uppeldi og menntun23(1).