Ákveðið hefur verið að breyta hámarkshraða í Bergunum í Þorlákshöfn úr 50 í 30 kílómetra hámarkshraða. Þetta var samþykkt á síðasta fundi Skipulags- og umhverfisnefndar Ölfuss.
Þar segir að á síðasta fundi hafi verið fjallað um erindi íbúa um hraðhindranir við Knarrarberg sem tekið var jákvætt í. „Komið hefur í ljós að vandamálið er ekki einungis bundið við þessa götu heldur hverfið í heild og erfitt er að koma hraðahindrunum fyrir á þessum stað þar sem mikið er um innkeyrslur í götunni og gatan breið með stæðum beggja vegna,“ segir í fundargerðinni.
Settar verða þrengingar og merkingar við innkomurnar tvær inn í hverfið, í Knarrarbergi og í Setbergi með 30 km/klst hámarkshraðaskiltum. „Málað verði „30“ þar fyrir innan og á fleiri stöðum í hverfinu. Þetta yrði til samræmis við önnur íbúðahverfi bæjarins sem eru með 30 km/klst hámarkshraða.“
Skipulagsfulltrúa er falið að senda erindið til lögreglustjórans á Suðurlandi og Framkvæmdadeild falið að útfæra breytinguna.