Svo virðist sem skemmdarvargur eða vargar gangi lausir í Þorlákshöfn þar sem þó nokkur skemmdarverk hafa verið framin í bæjarfélaginu síðastliðna daga.
Fyrst ber að nefna að einhver virðist hafa skorið stórt gat á ærslabelginn við ráðhúsið fyrir rúmri viku og hefur belgurinn verið loftlaus síðan.
Nokkrum dögum síðar birti íbúi á Oddabrautinni mynd á Facebook af skemmdum trjám í garðinum sínum. Garðyrkjustjóri Ölfuss staðfesti við íbúann að eitri hefði verið helt yfir trén.
Þá hafa skemmdaverk verið unnin í skrúðgarðinum. Til að mynda hafa margir hlaðnir steinar í hringtorginu í garðinum verið teknir niður og blóm rifin upp úr beðum. Einnig má sjá vatnsskemmdir miðað við ljósmynd sem einn íbúi Þorlákshafnar birti á Facebook.