Æ fleiri bæjarbúar að uppgötva golfvöllinn

Aðalfundur Golfklúbbs Þorlákshafnar var haldinn fyrir skömmu og þótti takast mjög vel. Vel var mætt á fundinn og einhugur í aðalfundargestum. Klúbburinn fagnaði 20 ára afmæli sínu á síðasta ári og var fyrsti formaður klúbbsins, Georg Már Michelsen gerður að heiðursfélaga á aðalfundinum.

Flestar lykiltölur í rekstri klúbbsins voru jákvæðar á síðasta ári. Hagnaður var af starfseminni upp á rúmlega 200 þúsund krónur, en miklar framkvæmdir voru á vellinum á síðasta ári og árin á undan. Félagar í klúbbnum hafa unnið mjög ötult starf við þessar framkvæmdir auk þess sem bæjarfélagið hefur stutt klúbbinn með myndarlegum hætti. Vinna við þessar breytingar hefur tekið svolítið á, en stefnt er að því að þeim verði að mestu lokið innan tveggja ára.

Heimsóknum á golfvöllinn fækkaði örlítið á síðasta ári og má að mestu skýra það með slöku tíðarfari síðasta vor. Góðu fréttirnar eru hins vegar að félögum í klúbbnum fjölgaði talsvert og má rekja fjölgunina að mestu leyti til þess að æ fleiri Þorlákshafnarbúar eru að uppgötva þessa perlu í bæjarlandinu sem golfvöllurinn er. Þá kom nokkur hluti nýrra félaga af höfuðborgarsvæðinu og ljóst að margir eru tilbúnir að aka þessa stuttu vegalengd til að spila á vellinum.

Golfklúbburinn sinnir barna- og unglingastarfi vel og síðasta sumar stjórnaði Ingvar Jónsson því starfi. Þess má geta að ungmenni undir tvítugu greiða engin félagsgjöld í klúbbinn. Þá var einnig blómlegt kvennastarf í klúbbnum á síðasta ári, en það var Ásta Júlía Jónsdóttir sem sá um það starf.

Haldið var hér Íslandsmót golfklúbba – 4. deild í ágúst mánuði. Átta klúbbar tóku þátt í þessari deild og þar á meðal okkar klúbbur og stóðu strákarnir sig mjög vel. Þá voru haldin fjölmörg innanfélagsmót, opin mót og að ógleymdu meistaramóti klúbbsins þar sem Ingvar Jónsson stóð uppi sem sigurvegari í meistaraflokki karla og var í kjölfarið útnefndur kylfingur ársins.

Á síðasta ári var gerð viðamikil skoðanakönnun meðal kylfinga á Íslandi. Í þeirri könnun kemur Golfklúbbur Þorlákshafnar mjög vel út, hvort sem miðað er við golfklúbba á Suðurlandi eða yfir landið allt. GÞ fékk hæstu einkunn þegar spurt var m.a. um viðmót starfsfólks, símsvörun, leikhraða á vellinum, umhirðu golfvallar, móttöku nýliða og verðlagningu árgjalds. GÞ var síðan í neðri kantinum þegar kom að æfingaaðstöðu inni og aðstöðu í klúbbhúsi.

Aðalfundurinn samþykkti tillögu stjórnar um ýmis gjöld. Þannig kostar árgjald í klúbbnum aðeins 48 þúsund krónur sem er það sama og á síðasta ári. Fullyrða má að það er með því allra lægsta sem þekkist á Íslandi. Tekið er vel á móti nýliðum í klúbbnum og sýnir það best að ársgjald nýliða fyrstu tvö árin er samtals 48 þúsund krónur.

Kosið var í stjórn klúbbsins og allir sem skipuðu stjórnina áður voru endurkjörnir. Guðmundur Karl Baldursson var endurkjörinn formaður klúbbsins og aðrir í stjórn eru Ingvar Jónsson, Magnús J. Guðmundsson, Magnús Ingvason og Óskar Logi Sigurðsson. Ásta Júlía Jónsdóttir og  Óskar Gíslason voru svo endurkjörin í varastjórn.