Bæjarráð berst gegn fækkun héraðsvega

Á seinustu misserum hefur bæjarráð Sveitarfélagsins Ölfus ítrekað gert athugasemd við hversu hart Vegagerðin gengur fram í því að fjarlægja vegi af vegaskrá, en Sveitarfélagið Ölfus missir þrjá til fimm héraðsvegi á ári. 

Grétar Ingi Erlendsson formaður bæjarráðs segir að bæjarráð hafi ítrekað tekið þessi mál til umfjöllunar. „Í umfjöllun á fundum bæjarráðs höfum við til að mynda bent á að búseta á jörðum í sveitarfélaginu hefur verið í þróun á síðastliðnum árum. Við lítum á það sem jákvætt hversu mikinn áhuga ungt fólk sýnir hvað varðar að taka upp búsetu í dreifbýlinu og stunda þar blöndu af búskap og annarri atvinnu.“ 

Grétar segir að í slíkri gerjun gerist það oft tímabundið að ekki verði um fasta búsetu á jörðum. „Í því samhengi höfum við gert kröfu um að ákvarðanir Vegagerðarinnar og annarra ríkisstofnanna verði ekki til þess að slíkt tímabundið ástand sé nýtt til að skerða möguleika fólks til að setjast þar að.“

Í Fréttablaðinu í dag er rætt við Elliða Vignisson bæjarstjóra um héraðsvegi en þar kemur fram að sveitarfélaginu berist mörg erindi frá Vegagerðinni um héraðsvegi. „Okkur þykir Vegagerðin ganga fullhart fram í sínum aðgerðum og bendum á að nýting jarða í kraganum í kringum borgina er að breytast nokkuð hratt,“ segir Elliði í samtali við Fréttablaðið. Ungt fólk velji sér í auknum mæli búsetu á þessum svæðum, bæði í þéttbýlinu og dreifbýlinu. „Það er ekki gott að Vegagerðin nýti hvert einasta tækifæri þegar millibilsástand verður til að taka vegi af skrá.“

Þegar Vegagerðin hefur tekið veg af skrá þá fellur viðhald hans ekki lengur á stofnunina heldur á landeiganda og að sögn Elliða eru þrír til fimm vegir á ári teknir af skrá í sveitarfélaginu. „Við höfum skilning á að Vegagerðin hafi fullt í fangi, og erum tilbúin til uppbyggingar með þeim, en við teljum að það mætti gefa meira svigrúm,“ segir Elliði í samtali við Fréttablaðið.