Ölfus hlaut viðurkenningu Jafnvægisvogar FKA

Sveitarfélagið Ölfus er eitt þeirra fimm sveitarfélaga sem hlotið hafa viðurkenningu Jafnvægisvogarinnar, hreyfiaflsverkefni FKA.

Jafnvægisvogin, hreyfiaflsverkefni Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA), hélt fyrir skömmu ráðstefnuna Jafnrétti er ákvörðun. Þar kynnti Eliza Reid viðurkenningarhafa Jafnvægisvogarinnar, en það eru þeir þátttakendur sem hafa náð að jafna hlutfall kynja í efsta lagi stjórnunar. Á ráðstefnu Jafnvægisvogarinnar árið 2019 hlutu 5 sveitarfélög sérstaka viðurkenningu og var Sveitarfélagið Ölfus eitt þeirra.

Elliði Vignisson bæjarstjóri segir að sem betur fer sé flestum ljós hversu mikill ábati fylgi því að vinna stöðugt að jafnréttismálum. „Þessi viðurkenning er okkur kærkomin og við sjáum hana til marks um að við séum að horfa í rétta átt hvað þetta varðar. Í viðbót við almenna stefnu svo sem í jafnréttisáætlun réðumst við í að innleiða jafnlaunastaðal ÍST85. Þeirri grunnvinnu lauk í vor með því að við fengum faggilta vottun á jafnlaunastaðlinum. Þar með höfum við komið okkur upp virku eftirliti og ferlum sem tryggja að málsmeðferð og ákvarðanataka í launamálum feli ekki í sér beina né óbeina kynbundna mismunun.“

Elliði segir að þessi mál komi öllum við og snúist ekki eingöngu um jafnan rétt kynjanna þótt sannarlega sé sá þáttur mikilvægur. „Sveitarfélagið er einn stærsti vinnustaður samfélags okkar.  Það er sjálfsagt og eðlilegt að launaákvarðanir séu gagnsæjar og að tryggt sé að ákvarðanir fylgi kjarasamningum og feli ekki í sér óútskýrðan launamun.  Við viljum að allir sitji við sama borð, óháð kyni eða öðrum persónubundnum þáttum.  Viðurkenning Jafnvægisvogar FKA er vísbending um að við séum að róa í rétta átt.“