Á seinasti fundi bæjarráðs samþykkti ráðið að gefa öllum starfsmönnum sveitarfélagsins gjafakort upp á 8.000 kr. í stað árshátíðar. Grétar Ingi Erlendsson, formaður bæjarráðs, segir að að það séu auðvitað vonbrigði að þurfa að fella hina árlegu árshátíð niður enda rík hefð fyrir henni. „Það hefði sannarlega verið kærkomið að koma saman til að fagna því hversu vel gengur, hér í okkar frábæra samfélagi. Íbúum er að fjölga, atvinnutækifæri að bætast við og vöxtur hvarvetna. Við vitum að svona gerist ekki af sjálfu sér og starfsmenn okkar eru lykilaðilar í sókn okkar og vörn. Árshátíðin hefði verið kærkomin til að þakka þeim þeirra stóra þátt í velgengninni.“
Grétar segir að ákveðið hafi verið að halda eins lengi og hægt væri í vonina um að til kæmu tilslakanir sem myndu gera Sveitarfélaginu Ölfusi kleift að halda í hefðina. „Þegar þriðja bylgjan skall svo á var morgunljóst að ekki yrði hægt að halda árshátíð og því var tekin ákvörðun um að fara þá leið að færa starfsmönnum gjafakort upp á 8.000 kr. til að sýna þakklætið í verki.“ Grétar bætir svo við að árið hafi fært starfsmönnum óvæntar áskoranir og með þessari gjöf væri verið að umbuna starfsmönnum fyrir vel unnin störf enda hafi starfsmenn mætt þessum erfiðu aðstæðum af æðruleysi og einbeittum vilja til að viðhalda innviðaþjónustu. „Bæjarráð vildi með þessu sína þakklæti sitt í verki og hvetja starfsmenn til að gera sér dagamun, stolt yfir vel unnum störfum.“
Með gjöfinni fylgir hvatning til starfsmanna að nýta hana þannig að fyrirtæki í sveitarfélaginu njóti góðs af.