Áform um framleiðslu á fljótandi vetni og vetnisbera við Þorlákshöfn

Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um áhuga erlendra fjárfesta til að fjárfesta fyrir hundruð milljarða í umhverfisvænni orku á Íslandi. Hafsteinn Helgason hjá EFLU segir að þar sé sérstaklega horft til fjárfestinga við Finnafjörð og Þorlákshöfn. Elliði Vignisson bæjarstjóri segir þessar hugmyndir á frumstigi. „Við höfum átt nokkra góða fundi, og teljum fulla ástæðu til að skoða þetta mál áfram með hagsmuni íbúa og fyrirtækja að leiðarljósi. Verkefnið snýr að framleiðslu á vetni og vetnisberum úr Íslenskri umhverfisvænni orku og er þar horft til þess að nýta þá miklu orku sem hér er bæði í jarðvarma, vindi og fallvötnum. Nálægðin við stækkandi höfn, sterkir innviðir og orkuríkt landsvæði gera Ölfusið ákjósanlegt til verkefna sem þessa. Við finnum vel að trúin á tækifærin hér í Ölfusi eru að vaxa hratt og fólk að verða meðvitaðra um vaxtarmöguleikana.“

Elliði minnir þó á að eðli nýsköpunarverkefna sé þannig að oftast sé um langhlaup að ræða með óvissan endastað. Sum verði jafnvel aldrei að veruleika. Hann kveðst þó afar jákvæður í garð þessa verkefnis enda mjög traustir aðilar á bak við það. Hann segir sveitarfélagið vel í stakk búið til að skoða fyrstu skrefin. „Við vinnum þetta fyrst og fremst í gegnum Þekkingarsetrið Ölfus Cluster eins og önnur atvinnuþróunar og nýsköpunarmál.“ 

Páll Marvin Jónsson framkvæmdastjóri Ölfus Cluster segir verkefnið fyrir margar sakir áhugavert. „Stærðargráðan á þessu er náttúrlega ótrúleg. Þjóðverjar eru að horfa til þess að framleiða sem svarar 80 gígvöttum í vetnisvæðingu samgangna fyrir árið 2030. Til samanburðar þá er Kárahnjúkavirkjun upp á 690 megavött. Verkefni sem um ræðir hér á Íslandi hlaupa því á hundruðum milljarða. Við erum alveg á jörðinni með þetta allt saman og vitum sem er að verkefni sem þetta eru fugl í skógi en ekki í hendi. Það sem þó er ljóst að hér er um mikla hagsmuni að ræða bæði fyrir okkur íbúa sem og þátttöku okkar í orkuskiptum almennt. Forysta þessa máls kemur af sjálfsögðu ætíð til með að vera fyrst og fremst hjá bæjarstjórn og íbúum. Við höfum því þegar boðað til kynningarfundar með bæjarfulltrúum og stefnum að því að kynna málið sem fyrst fyrir íbúum.“

Grétar Ingi Erlendsson formaður bæjarráðs segir að þetta verkefni kunni að falla vel að áherslum sveitarfélagsins en tekur þó undir þann fyrirvara sem Elliði og Páll settu. „Við vitum af styrk Ölfussins og þá ekki síst Þorlákshafnar og þar með af áhuga fjárfesta. Við erum því ætíð til í að vinna með traustum aðilum og sjá hvert það leiðir okkur. Við höfum lagt áherslu á umhverfisvæna framleiðslu á matvælum og hringrásar hagkerfi. Eitt af því sem við horfum því til hvað þetta varðar er áframnýting afurða til ótengdrar framleiðslu. Við höfum verið með ríka áherslu á laxeldi, staðsettu á landi. Jafnvel tugi þúsunda tonna árlega. Við framleiðslu á vetni og vetnisberum svo sem ammoníaki verður til súrefni sem nýta má til laxeldis með íblöndun við eldissjóinn og minnka þar mikið dælingarþörfina. Á sama máta nýtist glatvarminn frá iðnferlunum í að hita sjóinn til eldisins í kjörhitastig. Komi til þess að sett verði upp orkuver skapa þau auðvitað landeigendum tekjur og ammoníakið skapar tækifæri fyrir hröð orkuskipti fiskiskipaflotans og enn frekari vöxt hafnarinnar. Tækifærin eru því mikil.