Í gær var stórt skref tekið í frekari uppbyggingu á svið menningarlífsins í Ölfusi þegar Leikfélag Ölfuss og Hljómlistafélag Ölfus fengu afhent til eigin afnota húsnæði við Selvogsbraut 4. Alls er um að ræða 215 m2 húsnæði auk rúmgóðs geymslusvæðis í kjallara.
Leikfélagið hefur á seinustu árum verið á hálfgerðum hrakhólum með sitt starf og samnýting á aðstöðu í Versölum hefur valdið talsverðum vanda þegar nýta hefur þurft húsnæðið til annarskonar samkomuhalds.
Hljómlistafélag Ölfuss hefur á sama máta haft vilja til að byggja upp æfinga- og upptökurými fyrir tónlistarfólk í Ölfusi. Þar verður hægt að aðstoða ungt fólk sem vill setja saman hljómsveitir, semja, taka upp og læra á hljóðfæri auk þess sem fullorðið tónlistaráhuga- og atvinnufólk getur nýtt aðstöðuna. Svona aðstaða mun án efa einnig gagnast þeim tónlistarhópum sem fyrir eru, hvort sem það eru kórarnir, Lúðrasveit Þorlákshafnar eða Leikfélag Ölfuss svo eitthvað sé nefnt. Mikil þörf er á svona húsnæði í sveitarfélaginu og fullvíst að það yrði vel nýtt enda blómlegt tónlistarlíf í Þorlákshöfn og víðar í Ölfusi.
Grétar Ingi Erlendsson formaður bæjarráðs segir að sveitarfélagið sé afar meðvitað um mikilvægi menninga- og lista og líti á það sem einn af hornsteinum öflugs samfélags að slíkt fái þrifist. „Hjá sveitarfélaginu ríkir, nú sem endranær, einlægur metnaður og vilji til að tryggja að menning blómstri og dafni samhliða þeirri uppbyggingu sem hér hefur verið. Samtalið við sjálfstætt starfandi listafólk, hugmyndaríka íbúa og öflug menningarfélög hefur verið markvisst á síðustu misserum og við teljum með þessu skrefi sé stigið fastar í þessa átt. Það er með það í huga sem við höfum unnið þessu máli framgang og munum að minnsta kosti til næstu þriggja ára greiða leigukostnað þessara félaga.“