Þórsarar sigruðu Stjörnumenn í oddaleik liðanna í Þorlákshöfn í kvöld, 92-74 og tryggðu sér þar með sæti í úrslitunum gegn Keflvík. Þetta er í annað skiptið í sögu félagsins sem liðið fer í úrslitaeinvígið.
Eftir góða byrjun Stjörnumanna hóf Larry Thomas endurkomu Þórsara með átta stiga áhlaupi undir lok fyrri hálfleiks, þar af duttu tveir þristar og munaði aðeins þremur stigum á liðunum þegar gengið var til búningsklefa.
Þórsarar mættu mun grimmari til leiks í síðari hálfleik og héldu uppteknum hætti og jöfnuðu metin 47-47. Þristarnir duttu áfram og heimamenn leiddu með níu stigum áður en gestirnir náðu að snúa við leiknum og náðu að jafna leikinn aftur, í stöðunni 61-61.
Staðan var 65-61 í lok þriðja leikhluta. Þórsarar komu inn í fjórða leikluta með krafti. Þrjár þriggja stiga körfur og staðan allt í einu orðin 74-61. Þá var ekki aftur snúið, og þrátt fyrir ákafa vörn Stjörnumanna unnu Þórsarar 18 stiga sigur að lokum, 92-74 og einvígið 3-2.
Atkvæðamestur Þórsara í kvöld var Adomas Drunglias. Hann stóð frákastabaráttuna og átti teiginn, skilaði 24 fráköstum ásamt 7 stigum og 4 stoðsendingum.
Fyrsti leikur úrslitanna er á miðvikudaginn 16. júní kl. 20:15.
Leikurinn í tölum:
Larry Thomas 23 stig, 5 fráköst og 5 stoðsendingar, Styrmir Snær Þrastarson 21 stig og 7 fráköst, Callum Reese Lawson 15 stig og 6 fráköst, Ragnar Örn Bragason 9 stig, Halldór Garðar Hermannsson 8 stig, Adomas Drungilas 7 stig og 24 fráköst, Emil Karel Einarsson 4 stig, Davíð Arnar Ágústsson 3 stig og Tómas Valur Þrastarson 2 stig.