Oddaleikur í Þorlákshöfn á laugardaginn

Það verður oddaleikur í Þorlákshöfn á laugardaginn í undanúrslitarimmu Þórs og Stjörnunnar eftir að Stjarnan vann fjórða leikinn í Garðabæ í gærkvöldi 78-58.

Leikurinn spilaðist allt öðruvísi en þriðji leikurinn en Stjörnumenn spiluðu mjög þétt og hægðu á öllum aðgerðum Þórsara. Skotnýting okkar manna var ekki eins og hún á það til að vera en liðið skoraði einungis 4 þriggja stiga körfur í 27 tilraunum í leiknum og þá voru stoðsendingar liðsins aðeins 6 talsins.

Það verður því úrslitastund í Icelandic Glacial höllinni á laugardaginn klukkan 20:15. Okkar menn þurfa á góðum stuðningi að halda úr stúkunni en það lið sem vinnur mun mæta Keflavík í úrslitum.

Miðasala fer fram í appinu Stubbur og hvetjum við alla til að fjölmenna á pallana og hjálpa Þórsurum að komast í úrslitaeinvígið í annað sinn í sögunni.