Þórsarar leiða úrslitin eftir frábæran sigur í Keflavík

Þórsarar eru komnir í 1-0 í úrslitaviðureigninni gegn Keflavík eftir öruggan sigur í Keflavík í kvöld. Lokatölur urðu 73-91 en fyrir leikinn voru Keflvíkingar ósigraðir í úrslitakeppninni.

Okkar menn spiluðu frábæran varnarleik allan leikinn og sóknarleikurinn var einnig virkilega góður. Þórsarar leiddu rúmar 37 mínútur í leiknum og áttu Keflvíkingar engin svör við sterkum leik Þorlákshafnardrengjanna.

Ragnar Örn var frábær í kvöld með 22 stig, auk þess að spila hörku varnarleik á Hörð Axel. Larry Thomas skoraði 16 stig, gaf 9 stoðsendingar og tók 7 fráköst. Þá var Adomas Drungilas einnig virkilega góður í leiknum með 15 stig og hafði hann góða stjórn á teignum hjá Þórsurum. Callum Lawson skoraði 14 stig, Styrmir Snær 12, Davíð Arnar 7 stig og Halldór Garðar 5.

Næsti leikur liðanna fer fram í Þorlákshöfn á laugardaginn, 19. júní klukkan 20:15. Þórsarar þurfa góðan stuðning í stúkunni gegn feikilega sterku liði Keflavíkur. Miðasala mun fara fram í appinu Stubbur.