Landsbankinn í Þorlákshöfn hefur tekið til starfa á nýjum stað í Ráðhúsinu, Hafnarbergi 1 í Þorlákshöfn. Þar verður áfram hægt að sækja sér alla almenna bankaþjónustu. Sífellt fleiri nýta sér stafræna þjónustu bankans til að sinna sínum bankaviðskiptum þegar þeim hentar í netbankanum, Landsbankaappinu eða í hraðbönkum. Heimsóknum í útibú hefur þar af leiðandi fækkað. Þessi þróun gerir það að verkum að eldra húsnæðið í Ráðhúsinu var orðið of stórt og því var ákveðið að flytja afgreiðsluna í hagkvæmari og hentugri húsakynni. Samhliða þessum breytingum lýkur samstarfi við Íslandspóst í Þorlákshöfn.
Landsbankinn á sér langa sögu í Þorlákshöfn
Landsbankinn á sér langa sögu í Þorlákshöfn, eða síðan 1965, þegar opnuð var afgreiðsla út frá útibúinu á Selfossi. Afgreiðslan varð síðar að sjálfstæðu útibúi, allt til ársins 2017, þegar það sameinaðist útibúinu á Selfossi á ný. Starfssvæði útibúsins er öll Árnessýsla með þrjár afgreiðslur, en auk Þorlákshafnar og Selfoss er afgreiðsla í Reykholti. Alls starfa 16 starfsmenn í útibúinu í heild og myndar starfsfólkið öflugt teymi sem veitir viðskiptavinum faglega og góða þjónustu á starfssvæðum þess. Útibúið á sér langa sögu, eða allt frá 1918 og hefur tekið virkan þátt í atvinnuuppbyggingu á svæðinu og veitt viðskiptavinum bankaþjónustu í takt við þarfir þeirra á hverjum tíma.
Tökum þátt í öflugri uppbyggingu í Ölfusi
Mikil uppbygging hefur átt sér stað í sveitarfélaginu Ölfusi og við erum ánægð og stolt af því að fá að taka virkan þátt í þeirri þróun. Íbúar í Ölfusi, líkt og víðar um land, hafa í auknum mæli valið að taka íbúðalán hjá Landsbankanum, enda eru kjörin mjög samkeppnishæf og ferlið við íbúðalánatöku og greiðslumat einfalt og fljótlegt. Markaðshlutdeild Landsbankans á svæðinu er afar sterk bæði hvað varðar einstaklinga og fyrirtæki. Samtarf og samskipti við Sveitarfélagið Ölfus hafa verið góð og er það ánægjulegt að hafa fengið tækifæri til að koma að stofnun á nýju fjarvinnuveri í Þorlákshöfn og sjá eldra húsnæði bankans fá nýtt og spennandi hlutverk.
Við hlökkum til að taka á móti viðskiptavinum okkar í nýjum húsakynnum í Þorlákshöfn.
Nína Guðbjörg Pálsdóttir, útibússtjóri Landsbankans á Selfossi