Smyril Line bætir við skipi til Þorlákshafnar

Smyril Line hefur ákveðið að bæta skipi við áætlunasiglingar til Þorlákshafnar og þar með stórauka þjónustuna við út- og innflytjendur á Íslandi og í Færeyjum.  Í dag þjónustar Smyril Line Íslandi með þremur skipum þ.e. með vöruflutningaferjunum Mykinesi til/frá Rotterdam, Mistral til/frá Hirtshals til Þorlákshafnar og farþega- og vöruflutningaferjunni Norrænu sem siglir til Seyðisfjarðar.

Það er vöruflutningaferjan M/V Akranes sem mun þjónusta nýju áætlunina en skipið mun sigla frá Íslandi á miðvikudagskvöldum til Rotterdam og frá Rotterdam á laugardagskvöldi með komu snemma á miðvikudagsmorgni í Þorlákshöfn.

Með tilkomu nýju ferjunnar til Þorlákshafnar opnast nýir möguleikar fyrir inn- og útflytjendur á Íslandi. Verið er að bjóða upp á stuttan flutningstíma með útflutningsafurðir til Rotterdam með afhendingu í S-Evrópu á sunnudagskvöldum og um alla Evrópu aðfaranótt mánudags.  Fyrir innflutning til Íslands getur þú skilað inn vöru í lok dags á föstudegi og fengið hana til þín á miðvikudegi segir Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi.

Þrjú skip til Þorlákshafnar

Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi.

„Við hefjum siglingar Akranes núna í nóvember og fyrsta lestun í Rotterdam verður þann 20 nóvember og vikulega upp úr því.   Þetta er aukin og bætt þjónusta fyrir bæði inn- og útflytjendur enda hefur þessi flutningsaðferð þ.e.a.s. með svokölluðum RO/RO skipum sýnt sig að henta vel fyrir Ísland.  Við verðum því með þrjú áætlunarskip í siglingum til/frá Þorlákshöfn. Mistral siglir til/frá Hirtshals til Þorlákshafnar og svo Mykines og Akranes frá Rotterdam.  Norræna heldur áfram á Seyðisfirði að þjónusta norður og austurlandið“

Akranes, sem hefur verið í eigu Smyril Line frá 2019 var byggt árið 1998 í UMOE skipasmíðastöðinni í Noregi. Skipið er 138 metra langt, 23 metra breitt, 10.000 tonn og tekur 100 vöruflutningavagna í hverri ferð.