Nú er komið að síðustu tónleikunum í tónleikaröð Tómasar Jónssonar, en á fjórða sunnudegi aðventu er það Júníus Meyvant sem er gestur Tómasar í Þorlákskirkju.
Júníus Meyvant er sviðsnafn tónlistarmannsins Unnars Gísla Sigurmundssonar sem er búsettur og uppalinn í Vestmannaeyjum.
Júníus vann til verðlauna sem besti nýliði ársins og besta smáskífa ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum árið 2015. Einnig vann hann árið 2017 fyrir bestu popp-plötuna; Floating Harmonies. Sama ár hélt hann til Bandaríkjanna og spilaði meðal annars í New York og Seattle. Hann hefur undanfarið verið að taka upp nýtt efni og er nú tilbúinn með nýja plötu sem mun koma út á næsta ári.
Júníus er einstaklega skemmtilegur sögumaður og því næsta víst að þeir félagarnir muni kitla hláturtaugar viðstaddra með sögum sínum á milli laga.
Tónleikarnir hefjast kl. 16 og er miðaverð 3500 kr., hægt er að kaupa miða hér.
Engin þörf er á hraðprófum því tvö 50 manna hólf eru í kirkjunni (með leyfi heilbrigðisráðuneytisins) og nóg pláss til að hafa viðeigandi bil á milli óskildra aðila.
Meðfylgjandi myndband er upptaka af heimasókn Júníusar Meyvant ásamt hljómsveit í KEXP í einni af tónleikaferð hans um Ameríku, en Tómas er einmitt í hljómsveit Júníusar Meyvant.