Framkvæmdir við stækkun Þorlákshafnar ganga vel

Umfangsmiklar framkvæmdir eru í gangi við stækkun Þorlákshafnar og miðar þeim framkvæmdum vel skv. heimildum Hafnarfrétta en veður hefur þó sett strik í reikninginn. Heildarverkið mun breyta höfninni mikið og hugsanlega skapa henni ný sóknarfæri. Meðal helstu verkþátta er endurbygging Suðurvarabryggju, lenging Suðurvaragarðs, endurbygging Svartaskersbryggju og lenging Skarfaskersbryggju. Heildarkostnaður er áætlaður rúmlega 5 milljarðar og þar af er hluti hafnarsjóðs um 1,5 milljarður.

Grétar Ingi Erlendsson formaður bæjarráðs og nefndarmaður í Framkvæmda- og hafnarnefnd segir að verkið hafi farið vel af stað. „Eins og við er að búast hefur veður valdið nokkrum töfum en mér skilst að það þurfi ekki að hafa teljandi áhyggjur af því. Það mun vinnast upp á skömmum tíma. Aðstöðusköpun og vegagerð hefur gengið vonum framar auk þess sem hafnargerðin sjálf er nú þegar farin að taka á sig mynd en nýi garðurinn er komin tugi metra út. Þetta gerist auðvitað mjög hratt í byrjun þegar dýpið er lítið en þegar þeir svo komast á meira dýpi dregur úr sjónrænni framvindu jafnvel þó umfangið aukist.“

Aðspurður segir Grétar Ingi að hafnarframkvæmdin sé þegar farin að hafa áhrif. „Við höfðum mikla og einlæga trú á því að þessar hafnarframkvæmdir yrðu byr í seglin. Það var á forsendum þess sem verkið komst inn á samgönguáætlun þrátt fyrir úrtöluraddir þar um. Að mínu mati var það þrekvirki og áhrifin farin að koma í ljós. Nú þegar finnum við aukin áhuga og ekki síður trú á framtíðarvöxt. Ég vil í því samhengi nefna væntanlegar framkvæmdir Smyril line við stórt og glæsilegt vöruhús, undirbúning Heildelberg að uppsetningu á umhverfisvænni framleiðslu á íblöndunarefni í steypu, hringrásarverkefni GeoSalmo, nýframkvæmdir Fiskmarkaðar Íslands, nýtt verkstæði KAPP, stækkun seiðaeldanna og áfram má telja. Svo ekki sé nú minnst á þau ævintýri sem geta verið að gerast í tengslum við landeldið“.

Grétar Ingi bætir því við að lokum að framtíðin sé björt. „Það er ekkert öðruvísi hér en annarstaðar, það veldur hver á heldur. Á þeim 70 árum sem hér hefur verið þéttbýli hefur sóknin verið á forsendum hafnarinnar og í mínum huga er ekki nokkur vafi á því að næsta sókn er hafin. Nú er bara að fylgja henni eftir og í senn skipuleggja næstu skref“.