Gríðarleg óánægja á meðal eldri borgara

Það var virkilega þétt setið á opnum fundi Íbúalistans um málefni eldri borgara sem haldinn var kl. 17 í dag, miðvikudag. Ása Berglind, frambjóðandi í 1. sæti Íbúalistans opnaði fundinn með erindi þar sem hún fór yfir strauma, stefnur og áherslubreytingar í málefnum eldri borgara, bæði hérlendis og erlendis og talaði um þau tækifæri sem Íbúalistinn sér til að stórefla heimaþjónustu og heimahjúkrun í samstarfi við viðeigandi aðila. 

Það er óhætt að segja að hljóðið í mörgum fundargestum hafi verið virkilega þungt. Það ríkir gríðarleg óánægja með þá þjónustu sem er í boði fyrir eldri borgara. Íbúar á 9unni finna til mikils öryggisleysis þegar þeir eru einir í húsi eftir að síðasti starfsmaður fer kl. 16 og þeirra upplifun er sú að gangurinn á milli íbúða sé mjög hættulegur vegna misfella í hellulögn. Svo hættulegur að fólk treysti sér ekki til að ganga hann nema með göngugrind. 

Það var þó skýrt tekið fram að ánægja var með starfsfólkið sem vinnur á 9unni, en augljóst að það þarf að sinna of mörgum verkefnum á of skömmum tíma ,,Það er starfsfólkið sem á skilið hvíldarinnlögn í stað okkar” sagði einn fundagestanna og íbúi á 9unni.  

,,Það er erfitt að vera á skipi án skipstjóra” sagði annar fundargestur og íbúi sem bætti við að upplifun þeirra sé sú að þeim finnist eins og þeim sé ekki sinnt og að þau séu ekki mikils virði. Aðrir fundagestir tóku undir þetta og sögðu að það væri ekki búin að vera yfirmanneskja í húsinu síðan í byrjun júní 2021, fyrir tæpu ári síðan og að það skapaði mikið öryggisleysi. 

Umræða um hjúkrunarheimili átti sér stað og voru viðstaddir almennt sammála um að það ætti að halda áfram að stefna að því. Frambjóðendur Íbúalistans sögðu að ekki væri þó hægt að bíða eftir því, það þyrfti að finna lausnir strax og gera verulegar úrbætur í þjónustu við eldri borgara, þó svo umræðan og þrýstingur um að fá hjúkrunarheimili í Þorlákshöfn ætti alltaf að vera í gangi líkt og síðustu misseri. 

Elín Björg, frambjóðandi í 14. sæti fór yfir útfærslur sem hún vann ásamt Halldóru Sigríði fyrir Hollvinafélagið Höfn. Íbúalistinn hefur hug á að þróa þær áfram fái þau til þess umboð í komandi sveitarstjórnarkosningum 14. maí. 

Mikið var rætt um félagsstarf fyrir eldri borgara og ljóst að Félag eldri borgara stendur sig vel þegar kemur að því að reyna að hafa fjölbreytt framboð á félagsstarfi þó ýmislegt hafi fallið niður vegna covid. Hins vegar kom fram sterk gagnrýni á Sveitarfélagið Ölfus fyrir að vera ekki með nægilegt framboð af félagsstarfi og upplifun þeirra að utanumhaldið væri lítið sem ekkert. 

Það er augljóst að það eru gríðarmörg tækifæri til að gera miklu betur í þjónustu við eldri borgara og nokkuð víst að enginn íbúi hér vill að fólkið sem byggði þetta samfélag sem við tilheyrum líði eins og það sé einskis virði vegna úrræðaleysis af hálfu Sveitarfélagins og hlutaðeigandi aðila. 

Það er líka alveg ljóst að þessu þarf að gjörbreyta og það hratt með viðeigandi samstarfsaðilum og Íbúalistinn er einhuga um að þetta verði algjört forgangsmál fái þeir umboð í kosningunum 14. maí. 

Frambjóðendur vilja þakka öllum viðstöddum fyrir að mæta og taka þátt í samtalinu sem var málefnalegt og nauðsynlegt.