Hverfisráð í dreifbýli Ölfuss

Við ætlum að auka aðkomu íbúa að stjórnun eigin mála

Framboð D-lista er skipað sterku liði. Eins og önnur sterk lið komum við til leiks með ólíka styrkleika sem skilar okkur víðtækri þekkingu á samfélaginu og innsýn í daglegt líf og þarfir íbúa. Við erum stolt af því að á lista okkar sitjum við þrjú úr dreifbýlinu og þá ekki síður því hversu vel hagsmunum okkar er tekið af öðrum fulltrúum á þessum öfluga lista. Við trúum því í einlægni að saman myndi dreifbýlið og þéttbýlið þann grunn sem sókn seinustu ára hefur einkennst af.

Virðing fyrir fjölbreytileikanum

Við fulltrúar D-lista berum virðingu fyrir því að þótt almennt fari hagsmunir okkar allra saman þá þarf að gæta sérstaklega að ýmsum sérþörfum hvors svæðis fyrir sig. Til að tryggja virkt samtal höfum við því ákveðið, ef við fáum til þess stuðning kjósenda, að taka upp hverfisráð sem verður ætlað  fjölbreytt hlutverk.

Fjölbreytt hlutverk

Umræddu hverfisráði er þannig ætlað að vera formlegur umræðuvettvangur um hagsmunamál og þjónustu sveitarfélagsins hvað dreifbýlið varðar. Í gegnum það hyggjumst við skapa vettvang fyrir samráð íbúa, félagasamtaka og atvinnulífs á sínu nærsvæði og sveitarstjórnar. Það er jú sannarlega mikilvægt að leggja dreifbýlinu til vettvang til að verða enn virkari  þátttakendur í allri stefnumörkun Sveitarfélagsins Ölfuss. Auðvelda þeim að móta sjálfir sína hagsmuni og þjónustu innan dreifbýlisins. Ekki þarf að efast um kosti þess að íbúar, sem að öllu jöfnu eiga lítil tengsl við Þorlákshöfn þar sem stjórnsýslan er, verði ráðgefandi fyrir bæði kjörna fulltrúa og starfsfólk. Þannig stuðlum við að eflingu félagsauðs í sveitarfélaginu öllu og tengjum stjórnkerfi sveitarfélagsins betur við íbúa þess og nýtum þekkingu þeirra á sínu nánasta umhverfi.

Aukið aðgengi að stjórnun skipulags og þjónustu

Hugmynd okkar er að hverfisráð dreifbýlisins fái einnig til kynningar ný aðal- og deiliskipulög utan þéttbýlisins um leið og þau eru auglýst til umsagnar. Þannig hafi það tækifæri til að hafa áhrif á endanlega útgáfu skipulagstillagna. Einnig viljum við leitast við að haga málum þannig að hverfisráð dreifbýlis veiti umsögn um stærri framkvæmdir og meginbreytingu á þjónustu áður en endanlegar ákvarðanir eru teknar þar um í fastanefndum sveitarfélagsins. Einnig að ráðið komi ábendingum um skólamál og önnur atriði sem íbúar dreifbýlisins telja að þurfi að bæta.

Það hefur gengið vel í Sveitarfélaginu Ölfusi seinustu ár. Hvarvetna eru framkvæmdir og þjónusta hefur vaxið. Við fulltrúar D-lista bjóðum okkur fram til að gera gott enn betra og biðjum um stuðning ykkar til þess.

Frambjóðendur D-listans
Sigurbjörg Jenný Jónsdóttir, 2. sæti á lista D-listans
Geir Höskuldsson, 6. sæti á lista D-listans
Margrét Polly Hansen, 8. sæti á lista D-listans