Styrmir Snær íþróttamaður HSK

Styrmir Snær Þrastarson og Heiðrún Anna Hlynsdóttir voru kjörin íþróttamenn HSK 2021. Kjörinu var lýst á 100. ársþingi HSK sem fram fór í félagsheimilinu Þingborg í Flóahreppi síðastliðinn fimmtudag.

Styrmir Snær er einn efnilegasti körfuboltamaður landsins og hann varð Íslandsmeistari með Þór árið 2021. Styrmir var valinn í úrvalslið Dominosdeildar KKÍ og einnig valinn besti ungi leikmaður Íslandsmótsins. Árið 2021 var Styrmir valinn í 20 ára landslið Íslands sem keppti í Eistlandi og auk þess keppti hann með karlalandsliði Íslands í lokaumferð forkeppni að HM 2023 í Eistlandi. Í haust hélt hann svo til Bandaríkjanna og hefur spilað með Davidson Wildcats í háskólaboltanum í vetur.

Alls voru 27 íþróttamenn tilnefndir í kjörinu en íþróttanefndir innan HSK tilnefna íþróttamenn ársins í hverri keppnisgrein, sem koma svo til greina í valinu á íþróttakonu og karli ársins.