Hlustum á raddir eldri borgara

Nú hafa þrír listar tilkynnt framboð sín til sveitarstjórnar. Allt frambærilegt og gott fólk sem býður fram vinnu sína til næstu fjögurra ára.  Framboðin eru að kynna sér stöðuna í málaflokkunum og vinna að stefnumálum með opnum fundum og samtali við íbúa. 

Þjónusta við eldri borgara

Undanfarna daga hefur umræðan snúist um málefni eldri borgaranna okkar. Um fólkið sem ruddi brautina og þá þjónustu sem það fær og fær ekki. Það er vissulega margt gott gert, meðal annars kvöld og helgarinnlit, sem kom á fyrir nokkrum árum síðan og svo hefur verið boðið upp á  akstursþjónustu innan bæjar sem reynist mjög vel. Heimaþjónustan hefur aftur á móti, ítrekað fallið niður, vegna manneklu og ekkert gert til að auglýsa eftir  fólki til að bæta úr þeim vanda. 

Óöryggi og óánægja eldri borgra

Á nýlegum fundi með eldriborgurum kom fram óánægja með þjónustuna og það óöryggi sem þau upplifa, sérstaklega það fólk sem býr á 9unni. Óöryggið skapast af því, að enginn forstöðumanneskja hefur verið í starfi frá því um mitt síðasta ár fyrir utan smá tíma í haust. Enginn húsvörður eða vaktmanneskja er í húsinu og eftir að áhaldahúsinu lokar kl. 16.00 á daginn. Algengt er að í fjölbýlishúsum starfi húsvörður. Hægt væri þá að hringja í hann ef eitthvað gerist eftir kl 16.00 á daginn og um helgar. Þessar umkvartanir hef ég sjálf heyrt en ég hef starfað á 9unni frá því um miðjan desember. 

Er bjart yfir málefnum eldri borgara ?

Nýlega birtist grein á vef sveitarfélagsins með yfirskriftinni ”Bjart er yfir málefnum eldri borgara” er það rétt? Málefni eldri borgara snúast ekki bara um steinsteypu heldur fyrst og fremst um þjónustu. Núverandi meirihluti er sannarlega búinn að byggja fjórar nýjar íbúðir og á döfinni er að byggja nýja dagdvöl auk aðstöðu fyrir starfsfólk og er það vel og allir glaðir með það, en kvartanirnar snúast ekki um þennan þátt heldur skort á þjónustunni sem það á rétt á. Ef það vantar fólk til starfa þá fellur niður sú þjónusta sem viðkomandi á að fá og fær þá ekki þjónustu fyrr en í fyrsta lagi eftir tvær vikur sem er alls ekki viðunandi. 

Hlustum á eldri borgara

Eftir fundinn á 9unni heyrir maður frá sumum að eldri borgarar séu frekir og vanþakklátir. Við skulum spara stóru orðin, því við eigum öll eftir að eldast og viljum geta treyst á góða þjónustu sveitarfélagsins. Það er ekki óeðlilegt að óöryggi og hræðsla fylgi hækkandi aldri og heilsuleysi. Fyrir því þurfum við að bera virðingu og bæta þjónustu þessa aldurshóps eins vel og kostur er. Við þurfum svo sannarlega að hlusta á raddir eldri borgara, taka mark á þeim og ekki vera með sleggjudóma eða hroka gagnavart þeim og þeirra áhyggjum. 

Miðvikudaginn 6 apríl næstkomandi verður opinn fundur á 9unni kl 17.00 þar sem Framfarasinnar taka samtalið um málefni eldri borgara. Gestur fundarins verður Þórunn Huld Sveinbjörnsdóttir fyrrverandi formaður Landssamtaka eldri borgara. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir. 

Hrönn Guðmundsdóttir

Skipar 1 sæti X-B Framfarasinna í Ölfusi