Gleði, spenna, stolt. Allir sem hafa verið í íþróttum þekkja þessar tilfinningar. Gleðina sem fylgir því að æfa íþróttina sína og vera partur af hópi. Spennuna sem kitlar þegar komið er að því að sýna hvað maður getur. Og stoltið þegar vel gengur. Mörg okkar þurfa ekki að hugsa langt aftur í tímann til að finna stoltið, það var ótrúleg tilfinning þegar meistaraflokkur karla í körfubolta tók Íslandsmeistara titilinn í Icelandic Glacial höllinni í fyrra.
Ölfus er frábært sveitarfélag með framúrskarandi íþróttafólk og erum við ótrúlega lánsöm með umhverfi til íþróttaiðkunar og þau ýmsu námskeið sem íbúum stendur til boða. En það má alltaf stíga aðeins þyngra á bensíngjöfina og bjóða upp á fleira. Mín sýn er sú að öllum eigi að standa til boða einhvers konar hreyfing við hæfi, og allir sitji við sama borð þegar kemur að því. Við eigum öll skilið að fá að hreyfa okkur og líða vel.
Íþróttir eru nefnilega svo ótrúlega mikilvægar fyrir alla aldurshópa. Þær eru frábærar fyrir hreyfingu og félagsskap, en einnig skipta þær miklu máli fyrir tilfinningar og tilfinningaþroska hjá börnum. Alveg sama hvaða grein það er, það eru alltaf bæði jákvæðar og neikvæðar tilfinningar. Að læra að stjórna þeim og leyfa sér að finna þær sem einstaklingur eða sem partur af liði er ótrúlega dýrmæt reynsla.
Eftir því sem við eldumst, fer það síðan að skipta meira máli að viðhalda heilbrigðum lífsstíl bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu. Að mæta eitthvert og styrkja líkama og sál getur skipt sköpum fyrir lífið sem við eigum framundan. Að gefa sér tíma fyrir sjálfan sig er nauðsynlegt. Sumir vilja fara á æfingu með góðum félögum og taka gott spjall í leiðinni. Á sama tíma eru aðrir sem vilja skella tónlist í eyrun og taka á því. Sama hvaða hreyfingu við stundum þá er svo mikilvægt að við gefum okkur þennan dýrmæta tíma fyrir okkur sjálf.
Síðan höfum við öll heyrt að íþróttir séu frábær forvörn, og við skulum aldrei gleyma því. Að auka fræðslu til unglinga í gegnum félagsmiðstöðina er eitthvað sem ég vil auka. Því ég trúi því að samfélag sem uppbyggt er af góðu fólki og öflugu íþrótta- og æskulýðsstarfi muni ávallt blómstra.
Margt gott hefur verið gert sem ætti að sjálfsögðu að halda sínu striki. Þar má meðal annars nefna hækkun frístundastyrks og námskeið fyrir öryrkja og eldri borgara. En við höfum fleiri hugmyndir til að bæta íþróttir og tómstundir hérna í Ölfusi. Til dæmis að stofna gönguhópa til að auka hreyfingu utandyra. Styðja við íþróttafélögin og hjálpa þeim að fá til sín afreksíþróttafólk í sínum greinum til að tala við börnin og miðla sinni reynslu.
Einnig finnst okkur að viðburður þar sem íþróttamaður Ölfuss er kosinn ætti að vera auglýstur mun betur og vera opinn fyrir alla íþróttaunnendur sveitarfélagsins, öllum gefst þá kostur að mæta og fagna með íþróttafólkinu okkar, en þetta eru aðeins nokkrir punktar.
Ég vil enda á að segja að ég er stolt af því að vera íbúi okkar frábæra sveitarfélags og vona að ég fái að leggja mitt að mörkum til að gera Ölfus að sterkum heimavelli fyrir okkur öll.
Guðlaug Arna Hannesdóttir
geislafræðingur og frambjóðandi í 9.sæti Íbúalistans